Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:13]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér geri ég grein fyrir þeim málefnasviðum sem heyra undir nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti í frumvarpi til fjárlaga árið 2023. Framlag þeirra er um 40% af landsframleiðslu og þessir málaflokkar skapa yfir 40% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar þessar áherslur og á fjárlögum eru áætlaðir rúmir 28,8 milljarðar í heildarfjárheimildir til málefnasviða ráðuneytisins og vaxa um 6% milli ára. Af því eru 500 millj. kr. í tímabundið fjárfestingarátak í menningu. Árið 2023 hækka framlög til menningar og lista og verða í heildina rúmir 19,7 milljarðar. Markmið stjórnvalda er að fjölga störfum, bæta starfsöryggi og auka verðmætasköpun í skapandi greinum. Þá er lögð áhersla á varðveislu, aðgengi og miðlun menningararfs þjóðarinnar með því að styðja við blómlegt safnastarf. Framkvæmdir við Hús íslenskunnar eru á lokastigi og framkvæmdum við nýtt náttúruminjasafn ýtt úr vör.

Ég hef lagt áherslu á að í öllum skapandi greinum liggi fyrir stefna sem unnin er í breiðu samráði við grasrótina sem nýtist sem vegvísir til framtíðar. Meðal áhersluverkefna komandi árs er stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu sem fær tímabundið aukið framlag, 150 millj. kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir 75 millj. kr. varanlegu framlagi til hönnunarmála og 50 millj. kr. eru áætlaðar aukalega á næsta ári vegna myndlistarstefnu. Áfram verður lögð áhersla á eflingu sviðslista. Unnið er ötullega að framkvæmd kvikmyndastefnu til ársins 2030 og m.a. er gert ráð fyrir breytingum á lögum um Kvikmyndasjóð. Nú þegar er stærsta verkefni kvikmyndastefnunnar, hækkun endurgreiðsluhlutfalls til stærri verkefna, komið til framkvæmda.

Íslenska er mitt hjartans mál. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að huga vel að tungumálinu okkar og styðja áfram við bókaútgáfu á íslensku. Markmið okkar er að tryggja íslenskuna í sessi í stafrænum heimi með áframhaldandi 200 millj. kr. tímabundnu framlagi til máltækniverkefna. Ég vil líka nefna að við erum að vinna að gerð málstefnu um íslenskt táknmál og erum að vinna að þingsályktunartillögu um eflingu íslenskunnar og ég stefni að því að leggja hana fram fyrir vorþing.

Virðulegur forseti. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðislegri umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífi og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Það er okkur mikilvægt að hafa öflugt ríkisútvarp en styðja jafnframt við einkarekna fjölmiðla. Í fjárlögum næsta árs er eyrnamerkt fjármagn til þess. Auk þess erum við að vinna að nýrri fjölmiðlastefnu líkt og þekkist í nágrannalöndum okkar.

Virðulegur forseti. Ég þreytist ekki á að tala um mikilvægi ferðaþjónustunnar og hvernig hún hefur gjörbreytt íslensku hagkerfi síðasta áratuginn. Þeir fjármunir sem settir voru í stuðningsaðgerðir stjórnvalda í faraldrinum lögðu grunn að kröftugri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Hefði það ekki verið gert værum við að tala um allt aðra efnahagslega stöðu þjóðarbúsins. Ferðaþjónustan hefur að nýju náð að verða burðarás í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar, stuðla að stöðugra gengi krónunnar og bættum lífsgæðum fólksins í landinu. Okkar hlutverk er að tryggja að svo verði áfram. Helstu áskoranir og tækifæri á næsta ári felast í gerð aðgerðaáætlunar á grunni framtíðarsýnar íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 með sjálfbærni að leiðarljósi og í góðri samvinnu við greinina.

Virk samkeppni, traustur fjármálamarkaður og markviss neytendavernd er forsenda heilbrigðs atvinnulífs og styður við samkeppnishæfni Íslands. Unnið er að heildarstefnumótun á sviði neytendamála og gert er ráð fyrir varanlegri 24 millj. kr. aukningu til þeirra.

Virðulegur forseti. Við ætlum áfram að sækja fram á sviði ferðaþjónustu, menningar og skapandi greina, ásamt því að styrkja umgjörð fjölmiðla, efla neytendavernd og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, almenningi til hagsbóta.