Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:34]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Af því að við erum að tala um fjölmiðla og þær breytingar sem hafa átt sér stað í tengslum við fjármögnun fjölmiðla þá tengist það auðvitað hinni stafrænu byltingu og fyrirtækjum eins og Facebook og YouTube og öðrum sem eru á þessum markaði vegna þess að við sjáum að það hefur átt sér stað tilfærsla á auglýsingatekjum frá innlendum aðilum til erlendra aðila. Það er mjög mikilvægt að það sé jafnrétti í því hvernig þessir miðlar eru skattlagðir. Ég hef talað fyrir því og mun halda áfram að gera það á þessu kjörtímabili að það sé sanngirni og að þeir sem eru að auglýsa hjá þessum erlendu miðlum greiði þá virðisauka eða greiði í raun og veru svipaðan skatt og þeir væru að greiða ef þeir væru að auglýsa hjá innlendum aðilum. Þetta er eitt mál sem þarf að skoða. Og af því að við vorum að tala um Dani hér áðan þá hafa þeir farið þá leið og þeir hafa verið að skattleggja þessa aðila og notað tekjurnar af því til að styðja við innlenda framleiðslu. Ég er mjög opin fyrir því og vil endilega að við skoðum það betur. Það sem er að gerast og er mjög áhugavert er að hafa allt þetta aðgengi að öllum þessum erlendum miðlum, öllum þessum upplýsingum og bara hvað heimurinn hefur minnkað. En að sama skapi er mjög mikilvægt að við höldum vel utan um innlenda framleiðslu, um innlenda fjölmiðla. Eitt af því sem við tókum eftir þegar gerð var könnun á meðal barna varðandi orðaforða er að hann hefur verið að minnka og við tengjum það beint við að þau nota íslenska fjölmiðla ekki eins mikið og áður var.