Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:43]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé algerlega ljóst að umhverfi fjölmiðla á Íslandi mætir ákveðnum áskorunum þessa dagana. Ég get alveg tekið undir ýmsar áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af því tekjumódeli sem við erum að setja fram. Og eins og ég sagði í mínum inngangsorðum þá erum við að sjálfsögðu til umræðu um að endurskoða þetta umhverfi, kanna hvar við getum gert betur. Ég held líka að fjölmiðlarnir sjálfir þurfi að líta sér nær varðandi tekjuöflun og hvernig þeir veita aðgengi að sínu efni. Sá grunnur sem er nú er mjög brothættur og það er alveg ljóst að ríkið kemur ekkert inn í þetta nema að mjög takmörkuðu leyti og er þar að sýna ákveðna viðleitni. Ég held að það sem við þurfum svolítið að horfa til sé bara sú þróun sem er að eiga sér stað í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hugmyndir að þessum styrkjum fæddust ekki hér. Við erum að horfa til Danmerkur. Danir gera það þannig. Danska módelið er þannig að ríkið er ekki á auglýsingamarkaði. Þessir styrkir eru fyrir hendi. Það er líka verið að styrkja héraðsmiðla sérstaklega og svo er í raun verið að beina nýjum skatttekjum af þessum erlendu streymisveitum inn á innlenda markaðinn. Þannig er það módel. Ég hef sagt það áður að ég var mjög opin fyrir því að hafi þingmenn góðar hugmyndir sem mögulega gætu leyst þetta þá er mjög auðvelt að hafa samband við mig og koma fram með þær.