Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðu hér áðan um kvikmyndamál. Ég veit að ég og hæstv. ráðherra unnum mjög vel saman í því ásamt atvinnuveganefnd að auka fjármagn til endurgreiðslu á kvikmyndum í vor. Þá ræddum við mikið um það hversu mikilvægt það er að styðja við skapandi greinar. En á sama tíma er mjög sorglegt að heyra að þær aðhaldskröfur sem komu til ráðuneytisins hafi lent á þeim tveimur hlutum, Kvikmyndasjóði og Kvikmyndamiðstöð, sem eru í rauninni þau sem tryggja íslenska kvikmyndaframleiðslu hér á landi. Þó svo að hægt sé að segja að þetta brjóti nú kannski ekki stefnuna þá hef ég trú á því að hæstv. ráðherra myndi gjarnan vilja sleppa því að fara í þennan niðurskurð. Og þar sem hún hefur tækifæri til að sannfæra fjárlaganefnd þá vonast ég til þess að hún muni reyna að styðja það að þarna verði ekki skorið niður vegna þess að þarna er ekki um það háar upphæðir að ræða í stóru myndinni en þó mjög mikilvægar upphæðir þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð. Þetta er hlutur sem ég vona að við, þingið, getum reynt að bæta og sýna að við styðjum íslenskan kvikmyndaiðnað. Að sama skapi langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að aukna fjármagnið til endurgreiðslu dugi ekki þar sem nú fara að koma nokkur stór og mikil verkefni sem fá jafnvel mun hærri endurgreiðslu en árlega framlagið sem er sett á fjárlög.