Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:58]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Mig langar til þess að spyrja aðeins frekar um menningarmálin og það er varðar menningarhúsin. Ráðherra hefur sýnt mikilvægi menningarhúsa á landsbyggðinni mikinn skilning, eins og hún kom hér að, svo sem í Skagafirði og víðar. Mikinn fjölda félagsheimila má finna vítt og breitt um landið og eiga sveitarfélögin fullt í fangi með að sinna viðhaldi þeirra og tryggja starfsemi. Ég er einn þeirra sem tel að styrkja beri sérstaklega eitt menningarhús í hverju héraði með aðkomu ríkisins, opinbert menningarhús sem þjóni þannig stærra byggðarlagi.

Ég spyr: Getur ráðherra séð fyrir sér að útfæra stuðning við menningarhús á landsbyggðinni með þeim hætti að ríkið komi að því með fé til uppbyggingar og reksturs menningarhúsa, að styðja við uppbyggingu menningarstarfsemi í Félagsheimilinu Blönduósi, Félagsheimilinu Hvammstanga og Dalabúð Búðardal, svo einhver dæmi séu nefnd um lítil félagsheimili í héraðinu, og þá hvernig?

Svo langar mig að spyrja rétt aðeins varðandi skatttekjurnar af ferðaþjónustunni. Nú þegar ferðaþjónustan er orðin einn mikilvægasti atvinnuvegur landsmanna bera sveitarfélögin enn verulega skarðan hlut frá borði þegar kemur að hlutdeild í skatttekjum af ferðamönnum en þurfa engu að síður að standa undir margvíslegum innviðum til að taka á móti þeim og tryggja sjálfbæra umgengni um viðkvæma náttúru. Hvað líður gistináttagjaldi og komugjaldi sem sveitarfélögin eiga tilkall til að njóta réttlátrar hlutdeildar í og vinnu við útfærslu á skiptingu þeirra tekna?