Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Allt góð fyrirheit sem við styðjum og viljum sjá alveg skýrt á blaði. En ég er bara með fjárlagafrumvarpið hérna fyrir framan mig. Þar stendur þetta með 200 milljónirnar. Ég sé þetta ekki algerlega nákvæmlega og vil biðja hæstv. ráðherra, sem veit náttúrlega allt um þetta mál, að lóðsa mig áfram því að ég sé ekki að þetta sé tryggt á næsta ári. Ég sé það ekki. Það getur vel verið að það sé eitthvað sagt í fjármálaáætluninni sem er heldur ekki alveg skýr. Ég bið einfaldlega ráðherra út af mikilvægi íslenskrar tungu að útskýra þetta fyrir okkur, að þetta sé örugglega tryggt á fjárlögum næsta árs, ekki bara þessar 200 millj. kr. í einhverja skýrslugerð. Eins og ég segi: 200 milljónir duga skammt, þær duga ekki til að halda áfram af fullum krafti að efla máltæknina þannig að við styðjum raunverulega við íslenskuna. Ég bið hæstv. ráðherra að koma og tala skýrt og svara spurningunni hvað þetta varðar.

Önnur spurning sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tengist markaðseftirliti og neytendamálum, sem m.a. fellur undir Samkeppniseftirlitið, neytendamál o.fl. Mér sýnist að framlögin hækki í raun ekki í samræmi við verðlag og mig langar að fá skoðun hæstv. ráðherra á því hverju það sæti. Við sjáum að það er fákeppni víða. Við þurfum á öflugu samkeppniseftirliti að halda og það er miður ef ætlunin er að fara draga tennurnar úr bæði samkeppniseftirliti og neytendavernd. Mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti gefið útskýringar á því af hverju framlögin í þennan málaflokk hækka ekki einu sinni í samræmi við verðlag. Ég vona að það verði tekið fast á öllu því sem tengist samkeppni, það verði byggt (Forseti hringir.) upp heilbrigt fyrirkomulag sem tekur á fákeppni sem er ein helsta meinsemdin fyrir neytendur og íslensk samfélag þannig að það er mikið undir og þess vegna vænti ég skýrra svara.