Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:09]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fara yfir nokkur atriði sem við hrintum í framkvæmd á síðasta kjörtímabili til að styðja við íslenskuna. Við fórum í það að endurgreiða bókaútgáfu sem hefur aldrei gerst áður og það sem hefur gerst í kjölfarið er að til að mynda hefur átt sér stað mikil fjölgun í útgáfu barna- og unglingabókmennta, eða um 60% á milli ára, vegna þessara aðgerða sem við fórum í. Við fórum líka í það að styðja við einkarekna fjölmiðla til að styðja við tungumálið. Við studdum við máltækniverkefnið. Það sem við ætlum að gera núna á þessu kjörtímabili er að styðja enn frekar við tungumálið okkar. Eins og kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra þá er íslenskan lykillinn að lífinu og við höfum sýnt það, þessi ríkisstjórn, að við erum ekki bara að tala og veifa og með einhver gífuryrði, við sannarlega brettum upp ermar og hrindum okkar stefnumálum í framkvæmd. Það munum við svo sannarlega gera varðandi máltækniverkefni. Nú erum að meta það hvernig við förum inn í næstu máltækniáætlun, þ.e. hvar við setjum fjármunina. Sú máltækniáætlun sem var hrint í framkvæmd á síðasta kjörtímabili var afar metnaðarfull og við fáum mjög góða dóma fyrir hana þegar við erum að tala við þau fyrirtæki sem þekkja þarna best til þannig að öll umræða um að 200 milljónir séu að fara í einhverja skýrslugerð og eitthvað slíkt — ég óska bara eftir því að hv. þingmaður skoði það aðeins hvað hefur verið gert á síðasta kjörtímabili og reyni ekki að slá ryki í augu fólks um að það standi til að við ætlum ekki að sinna máltækniáætluninni. Það er bara af og frá.