Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:21]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í þetta mál vegna þess að eitt af því sem valdið hefur misskilningi og margir spyrja sig að er nákvæmlega þetta. Ég þakka því fyrir það tækifæri að fá að skýra það út hér. Endurgreiðslur til kvikmyndaframleiðslu hafa verið við lýði á Íslandi frá árinu 2001. Þær voru til að byrja með, ef ég man rétt, í kringum 11% og svo hafa þær verið að hækka til að geirinn sé samkeppnishæfur. Eitt af því sem er að gerast núna er að vegna mikillar reynslu sem er á Íslandi hafa mjög margir erlendir aðilar áhuga á því að koma og taka upp stór verkefni. Ef ég tek bara þetta dæmi, þ.e. þessa 9 milljarða, þá koma líka tekjur með þessum 9 milljörðum, bæði beinar tekjur í tengslum við skattinn, skattalegar greiðslur viðkomandi aðila, svo eru það laun og svo eru það óbein og svokölluð þriðja stigs áhrif. Þannig að tekjur ríkissjóðs eru að aukast í takt við þessi auknu umsvif. Það sem hefur gerst iðulega er að vegna þeirrar miklu veltu sem er í kvikmyndageiranum þá þarf að koma til aukafjárveiting í kringum þetta þegar verið er að ræða fjárlögin. Og það verður gert líka núna. Það er áætluð ákveðin fjárhæð og það þarf að auka hana til að klára árið. Það er búið að vera að gera þetta síðustu fjögur til fimm árin. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þetta er ekki mjög skýrt í fjárlögunum og við þurfum bara að skoða það. Stundum getur verið erfitt að áætla þetta, þ.e. er að áætla fyrir þessu, vegna þess að það er ekki alveg ljóst í upphafi árs hversu mörg verkefni koma. En þetta er óljóst og við þurfum að skýra það betur.