153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir helstu atriðum frumvarps til fjárlaga fyrir þau tvö málefnasvið sem falla undir utanríkisráðuneytið. Fjárlagafrumvarpið sem hér er til umfjöllunar byggist á gildandi fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti í júní.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að heildarframlög til málefnasviða sem heyra undir utanríkisráðuneytið hækki um rúmlega 3,3 milljarða kr. og verði samtals 27,5 milljarðar kr.. Hækkun heildarframlaga skýrist fyrst og fremst af þrennu: Auknum framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, auknum framlögum til Uppbyggingarsjóðs EES og síðast en ekki síst gjörbreyttri stöðu í öryggismálum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu og áhrif hennar á varnarmál íslenska ríkisins.

Á komandi ári mun Ísland áfram standa vörð um alþjóðakerfið, lýðræðisleg gildi, mannréttindi og þjóðarétt með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þessi gildi eru einnig í forgrunni þróunarsamvinnu sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun og bættum lífskjörum í þróunarríkjum.

Ísland mun á árinu 2023 gegna formennsku í Evrópuráðinu, formennsku í norrænni samvinnu og sitja í framkvæmdastjórn UNESCO.

Heildarfjárheimildir til málefnasviðs 4, utanríkismál, eru 15,8 milljarðar kr. á næsta ári og hækka um 1,7 milljarða kr. að raungildi. Heildarframlög til málaflokksins utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála lækka um 60,7 millj. kr. á milli ára ef litið er fram hjá verðlagsbreytingum. Af helstu verkefnum málaflokksins sem liggja fyrir á næsta ári má nefna fyrrgreinda forystu í alþjóðastofnunum og formennsku í norrænu samstarfi 2023. Málefni Úkraínu og málsvarastarf í þágu frelsis og mannréttinda verða áfram í brennidepli. Þá verður áfram unnið að bættri framkvæmd EES-samningsins, í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.

Undir málaflokkinn utanríkisviðskipti falla framlög til Íslandsstofu, sem nema 1.019 millj. kr.   Framlög til málaflokksins samstarf um öryggis- og varnarmál aukast um 380 millj. kr. þegar litið er fram hjá verðlagsbreytingum. Þar ber hæst fjölþjóðasamstarf um öryggis- og varnarmál, sem hefur fengið aukið vægi undanfarin ár, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu og annarra breytinga í alþjóðlegu öryggisumhverfi. Þá er unnið markvisst að því að auka skilvirkni í samskiptum ólíkra ráðuneyta, stofnana, fræðasamfélagsins, einkafyrirtækja og í samstarfi við bandalagsríki, sem fást við málefni sem snerta fjölþáttaógnir. Undir málaflokkinn heyrir einnig rekstur og fjármögnun varnartengdra rekstrarverkefna og yfirumsjón með öryggis- og varnarsvæðum á Íslandi. Loks hækka samningsbundin framlög til fjölþjóðastofnana um 1.239,9 millj. kr.. Hækkunin skýrist að mestu vegna framlags til Uppbyggingarsjóðs EES.

Þá að málefnasviði 35, alþjóðleg þróunarsamvinna. Heildarfjárheimildir hækka um liðlega 1,4 milljarða kr. eða um 12%. Gert er ráð fyrir að framlög Íslands til þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum verði áfram 0,35% af vergum þjóðartekjum á næsta ári sem er yfir meðaltal aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar OECD, sem var 0,33% á síðastliðnu ári. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós, jafnt í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu og í verkefnum í tvíhliða samstarfslöndum Íslands í þróunarsamvinnu. Mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbær nýting náttúruauðlinda verða sem fyrr í fyrirrúmi. Þá verða framlög til loftslagstengdra þróunarsamvinnuverkefna aukin til samræmis við áherslur ríkisstjórnarinnar. Ísland styður áfram Úkraínu, bæði með mannúðar- og efnahagsaðstoð, og leggur sitt af mörkum vegna neyðar annars staðar í heiminum sem afleiðingar stríðsins og loftslagsbreytingar hafa gert enn verri.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum varðandi þau málefnasvið sem heyra undir utanríkisráðherra.