Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég átta mig á að hæstv. fjármálaráðherra er í íhlaupavinnu fyrir hæstv. utanríkisráðherra en engu að síður fannst mér ánægjulegt að hann ræddi utanríkismál í fjörlegri stefnuræðu sinni. Mig langar að vitna aðeins til þess sem hann sagði í ræðunni, með leyfi:

„Við Íslendingar höfum fordæmt árás Rússa á fullvalda ríki í Úkraínu og við þurfum að fylgja því eftir með fullri og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Við eigum ekki að vera eftirbátar nágrannaríkja okkar í stuðningi vegna þess máls.“

Ég tek heils hugar undir þessi orð hæstv. ráðherra og fagna brýningu hans um að Íslendingar eigi að taka fullan og virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Hæstv. ráðherra talar um að við eigum ekki að vera eftirbátar nágrannaríkja okkar í stuðningi við þetta mál, eins og hann orðar það, og á væntanlega við stuðning við Úkraínumenn.

Þess vegna langar mig að koma inn á það sem hann nefndi varðandi þróunarsamvinnuna, hvort við ættum ekki að reyna að vera jafnokar nágrannaríkja okkar þar í staðinn fyrir að vísa í meðaltöl OECD. Við erum auðvitað, eins og hæstv. ráðherra þekkir, meðal þeirra þjóða sem taka undir að betur stæðar þjóðir eigi að veita 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu í málaflokkinn. Við áformum hins vegar að leggja til 0,35% núna, líkt og í fyrra. Á þeim tíma sem ég hef setið á þingi, sem er ekki langur en þó fimm ár, þá hefur þetta held ég hækkað um 3 prósentustig. Ef við ætlum að ná þessum 0,7% á sama hraða þá mun það taka 50–60 ár, held ég.

Ég spyr ráðherrann aftur hvort við ættum ekki að stefna aðeins hærra og hvað hann sjái fyrir sér í þessum efnum á næstu árum.

.