Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það má auðvitað orðað það þannig að við séum á réttri leið á meðan við erum að hækka. En spurningin er hvort við getum gert þetta í aðeins skarpari skrefum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá leiða Norðurlöndin í þessum framlögum. Mig minnir að Svíar séu með rúmlega 1%, Norðmenn og Danir eru einhvers staðar rétt yfir 0,70% og Finnar sem draga lestina þarna meðal þessara fjögurra stóru Norðurlandaríkja eru einhvers staðar í 0,5%.

Við eigum þess vegna langt í land. Því vil ég ítreka þá sýn mína a.m.k. að við stefnum í þessa átt af meiri metnaði. Það er auðvitað rétt að í krónum þá hækka framlögin talsvert þegar hagvöxtur er mikill en að sama skapi höfum við úr meiru að spila. Ég er sannfærður um að okkur muni ekki farnast vel á þessari jörð ef við tökum ekki alvarlega þær áskoranir sem blasa við fátækustu ríkjum heims og ég tala nú ekki um þegar sögulega er hægt að halda því fram að Vesturlöndin, þótt Íslendingar hafi kannski ekki verið þar fremstir í flokki, hafi mergsogið mörg þessara ríkja.

Varðandi það sem ráðherra kom inn á um að byggja upp þekkingu í stjórnsýslunni og stjórnkerfinu þannig að peningarnir nýtist betur, þá tek ég undir það. En ég vil þó hrósa okkur Íslendingum fyrir að hafa að miklu leyti unnið að þróunarsamvinnu í samstarfi við heimamenn og gert það ágætlega, við eigum dæmi um það frá Malaví t.d. En ég vil fá aðeins skýrari svör um hvað hæstv. ráðherra sjái fyrir sér á næstu árum ef hann ætlar að vera fjármálaráðherra mikið lengur.