Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að framlag til varnartengdra verkefna hækki um 300 milljónir á næsta ári og hluti þeirra verkefna sem þar er verið að horfa til falla undir þjónustusamning við Landhelgisgæsluna. Nú er unnið að útfærslu þessarar fjárheimildar og má gera ráð fyrir að það hafi áhrif til hækkunar á greiðslum vegna samningsins. Á meðal þess sem gert er ráð fyrir að auknar heimildir fari í er viðhaldskostnaður vegna 140 mannvirkja á öryggissvæðum og aukin öryggisgæsla, þjálfun og endurmenntun starfsfólksins þar.

Hvað varðar samstarf við embætti ríkislögreglustjóra þá er það á mjög afmörkuðu sviði og snýr m.a. að útgáfu öryggisvottana, öryggisgæslu og samstarfi á sviði fjölþáttaógna, svo dæmi séu tekin. Hluta af auknum framlögum til varnarmála er ætlað að mæta kostnaði við að efla netvarnir svo þess sé getið og eins vegna viðbragða við fjölþáttaógnum, en þar hefur utanríkisráðuneytið gegnt lykilhlutverki og við megum ekki sofna á verðinum þar. Það væri mjög alvarlegt mál og þetta er málaflokkur sem fær mjög vaxandi athygli í alþjóðlegu samstarfi þessi misserin, ekki síst á Norðurlöndunum. Ég tel sem sagt að með þessu sé nú komið fram að það er verið að huga að því að sinna þeim málaflokkum áfram af krafti og góðri eftirfylgni eins og hv. þingmaður er að kalla eftir.