Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar kannski fyrst að geta þess að netöryggismálin hafa verið á dagskrá hjá þjóðaröryggisráði oftar en einu sinni og eru málaflokkur sem fær athygli sífellt ofar í stjórnkerfinu. Það má segja að allar lykilstofnanir ríkisins hafi þurft að taka til sín málaflokka sem tengjast netöryggi og spyrja hversu vel við höfum varið grunnkerfin okkar. Nú hefur verið unnin töluvert mikil vinna við að skilgreina þá grunninnviði sem við þurfum sérstaklega að gæta að.

Eins og ég kom inn á áðan, þá hefur í alþjóðasamstarfinu hluta af auknum framlögum til varnarmála verið ætlað að mæta netvörnum og viðbrögðum við fjölþáttaógnum. Við höfum undirgengist með aðild að Atlantshafsbandalaginu ákveðnar skuldbindingar og aðildarríkin hafa sammælst um aukna áherslu á fjölþáttaógnir og netöryggismál. Við þurfum að stíga ölduna með þeim breytingum sem eru að verða á þessu sviði og því er enginn vafi í mínum huga að við munum áfram þurfa að efla varnir okkar og undirbúning vegna netöryggismála. Stutt er síðan ég var sem fjármála- og efnahagsráðherra úti í Noregi á ráðherrafundi í norrænu samvinnunni þar sem fulltrúi okkar frá CERT-IS fór yfir stöðuna hér innan lands og það er alveg augljóst að þetta er málaflokkur sem þarf sífellt meiri athygli vegna þess að árásirnar eru að verða æ fjölbreyttari og þeim fjölgar. Utanríkisráðuneytið ber m.a. ábyrgð á því að byggja upp þekkingu og miðlun, gera áhættumatið, þróa aðgerðaáætlanir o.s.frv. Það væri hægt setja á sérstaka umræðu í þinginu um netöryggismálin. Þetta er það stór og mikilvægur málaflokkur.