Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hér um Grænland. Ég er varaformaður í Vestnorræna ráðinu fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og svo í heimskautahópi Alþingis. Ég fór tvisvar sinnum í síðustu viku til Grænlands, til Nuuk og svo stoppuðum við í Narsarsuaq í millilendingu, stórkostlegt land. Ég tel að samskipti ríkjanna ættu að vera mun meiri. Það er alveg gríðarleg framþróun þarna í gangi. Við í fyrri hópnum röltum þarna um og töldum 15 byggingarkrana. Þetta er byggðarlag á stærð við Akureyri og má eiginlega segja að verið sé að uppfæra Nuuk, Nuuk II sé að fara að koma. Mikil framþróun þar og spennandi hlutir að gerast í samfélaginu, bæði pólitískt, efnahagslega og varðandi öryggismál og annað slíkt. Mjög gaman að fylgjast með því hvað mun gerast og eins og ég segi þá tel ég að samskipti ríkjanna ættu að vera enn þá meiri.

Í desember 2020 var birt skýrsla um samstarf Íslands og Grænlands á norðurslóðum. Í skýrslunni voru gerðar ýmsar tillögur til að efla tengsl þjóðanna. Ein var sú að gerður yrði tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og Grænlands og ég veit að könnunarviðræður eru farnar af stað eða að fara af stað. Ég tel að mörg tækifæri felist í þessum samningi. Það er í raun með ólíkindum að tengslin séu ekki meiri miðað við landfræðilega nánd og ég veit að Grænlendingar horfa mjög mikið til Íslands í samskiptunum, sérstaklega varðandi nýju flugvellina þrjá og líka varðandi það sem hefur gerst í Sundahöfn á undanförnum árum. Það er gaman að geta þess að Grænlandi er landfræðilega séð fyrir norðan, vestan, sunnan og austan Ísland, þetta gríðarlega stóra land er raunverulega það land sem við eigum horfa mikið til. En það er mikilvægt að við horfum líka á hlutina út frá þeirra forsendum, þróunar þeirra, hvar þeir eru staddir í þróuninni, eins og þeir hafa sjálfir sagt.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin stefni að gerð tvíhliða samnings og hvort ekki væri rétt að það væri vestnorrænn viðskiptasamningur, þ.e. að Grænland verði í raun tengt upp í Hoyvíkursamkomulagið og að þar væri jafnvel gert ráð fyrir dómstóli til að taka á deilumálum, ad hoc dómstóli, svo það væru ekki deilur eins og þær sem hafa orðið um Hoyvíkursamkomulagið.