Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Þegar við ræðum um heildarumfang aðstoðarinnar þá held ég að við þurfum bæði að horfa til þess sem er að gerast á líðandi ári og velta fyrir okkur stöðunni eins og hún breytist frá einum tíma til annars varðandi fjárlagafrumvarpið á næsta ári sem við ræðum hér.

Í ræðunni sem ég flutti fyrr í vikunni þá var ég ekki síst að horfa til yfirstandandi árs og ég var með tölur í huga sem sýna að án þess að við leggjum til viðbótarframlög á árinu 2022 þá erum við dálítið fyrir aftan Norðurlandaþjóðirnar í heildarumfangi stuðnings. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst alveg ótvírætt að Alþingi geti með fjáraukalagaheimild bætt í stuðninginn á árinu 2022. Það er augljóst öllum að það var ófyrirséð þegar fjárlög þessa árs voru sett saman að það myndi reyna á slíka alþjóðlega aðstoð. Mér finnst ég einfaldlega skynja hér á þinginu mjög mikinn og eindreginn þverpólitískan stuðning við að senda skýr skilaboð, m.a. með fjárframlögum en ekki bara með yfirlýsingum, að þeim sé fylgt eftir með virkum hætti. Það sem verið er að ræða um þessar mundir eru mjög venjulegir hlutir sem maður hefði svo sem getað ímyndað sér, eins og bara að það er að skella á vetur. Það er kalt, það vantar föt og við þurfum að spyrja okkur hvort við getum gert meira og hvernig við getum komið því til skila, hvort það verði með beinum fjárframlögum eða með því að setja föt í gám og senda af stað.