Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hér er komið inn á þá tökum við við formennsku í Evrópuráðinu í Strassborg í sex mánuði, frá nóvember næstkomandi fram í maí, og þá munum við stýra öllum fundum ráðherranefndar Evrópuráðsins, leiða samskipti stofnana innan þess og vera málsvari þess út á við að því er varðar alþjóðapólitíska sviðið og við sinnum sömuleiðis samskiptum við aðrar alþjóðastofnanir. Þessu tímabili lýkur svo með ráðherrafundi í Reykjavík sem utanríkisráðherrar allra aðildarríkja Evrópuráðsins sækja og það er þess vegna hægt að segja að þarna sé um að ræða stærsta ráðherrafund sem haldinn hefur verið á Íslandi til þessa en utanríkisráðherrum allra 46 aðildarríkjanna verður boðið til fundarins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir sérstöku tímabundnu framlagi vegna ráðherrafundarins næsta vor upp á 20,5 millj. kr., eingöngu vegna fundarins. Við endurmat á umfangi heildarkostnaðar verkefnisins var litið til raunkostnaðar ráðherrafundar Norðurskautsráðsins 2021 sem leiddi í ljós að heildarkostnaður við ráðherrafund Evrópuráðsins á næsta ári er að öllum líkindum vanáætlaður. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þýðingu þess að vel takist til þegar augu allra munu beinast að Íslandi á þessum örlagatímum sem nú eru uppi og við þurfum þess vegna að tryggja að við getum framkvæmt vel heppnaðan fund og verið þannig landi og þjóð til sóma. Í aðdraganda formennskunnar var sömuleiðis ákveðið að endurvekja fastanefndina. Hún hefur verið styrkt sérstaklega vegna þessa verkefnis. Við þurfum einfaldlega núna í vetur að spyrja hvort það sé þörf á frekari undirbúningi eða frekari fjármögnun til að framkvæma vel heppnaðan fund. Eftir atvikum þá þarf að horfast í augu við óumflýjanlegan kostnað vegna fundarins ef til þess kemur á næsta ári. En best væri auðvitað að hafa þetta vel rammað inn í fjárlögum.