Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég myndi segja að í tengslum við málefni Úkraínu þá hafi svo margt skipt máli fram til þessa. Það skipti máli að Alþingi hélt sérstakan fund eins og við munum í beinni útsendingu. Það sýndi samstöðuna hér heima fyrir og það hefur skipt miklu máli hvernig umræðan hefur verið hérna á þinginu og samstaðan alveg órofa. Það hefur skipt máli að utanríkisráðherra hefur fylgt stefnu stjórnvalda mjög fast eftir og sótt fjölmarga fundi þar sem áherslur okkar Íslendinga hafa komist til skila. Þetta skiptir máli, alveg eins og það skiptir máli að sýna stuðninginn ekki bara í orði heldur í verki með beinum fjárstuðningi og annars konar stuðningi eins og við höfum aðeins verið að rekja hér. Ég rakti hér áðan t.d. að við höfum verið að miðla þekkingu á sprengjuleit til Úkraínumanna. En ég hygg að við þurfum einfaldlega stöðugt að velta því fyrir okkur eftir hverju er verið að kalla og hvort við höfum mætt væntingum og óskum í samræmi við okkar getu og vilja. Þessari umræðu er einfaldlega ekki lokið.

Það færi vel á því, tel ég, að efna til umræðu hérna í þinginu um netöryggismál og samhengi þeirra við þjóðaröryggi. Vafalaust höfum við á undanförnum árum ekki veitt þeim málaflokki nægjanlega mikla athygli. Þó hefur það, eins og ég hef sagt, verið tekið upp núna á undanförnum árum í efsta stigi stjórnkerfisins og sú umræða á mjög heima hérna í þingsal þegar tækifæri gefst.