Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þann tón sem sleginn hefur verið hér hér varðandi mikilvægi samstöðunnar sem hefur verið einróma og órofa hér á þingi. Það hefur að mínu mati skipt mjög miklu máli að ríkisstjórnin og ekki síst hæstv. utanríkisráðherra finni það að hún hefur þennan ótvíræðan stuðning okkar þegar kemur að málefnum Úkraínu og þeirrar hörmulegu stöðu sem þar er. Úkraínustríðið gjörbreytti náttúrlega veröld okkar, eins og við vitum. Það sem ég harma, og ekki bara ég heldur líka til að mynda Björn Bjarnason sem er helsti sérfræðingur okkar þegar kemur að utanríkis- og varnarmálum, er þessi þögn sem er um utanríkis- og varnarmál. Hann segir að hún sé meiri hér en í nokkru nágrannalandi okkar. Ég tek undir það. Viðreisn er til að mynda eini flokkurinn sem hefur lagt fram mjög ákveðnar tillögur um það hvernig við ætlum að efla okkur og að við verðum að efla okkur í öryggis- og varnarmálum með því að vera fullir þátttakendur í öllum störfum NATO, auka framlög okkar þangað, borgaralega þátttöku, taka umræðu um það hvort við eigum að fara í það að reyna að fá hingað varnarlið eða útfærslu á því með einhverjum hætti.

Það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er hvort hann telji nóg að gert og hvort við sjáum það í fjárlögum — af því að við erum að ræða fjárlögin hérna og það er kannski erfitt að fara djúpt inn í öryggis- og varnarmál í tveggja mínútna andsvari — hvort hann telji fjárlögin styðja við það að við hér á þingi, utanríkismálanefnd í samvinnu við utanríkisráðherra, tökum stærri skref til að verja með afgerandi hætti meira fé í og taka stærri skref til að efla öryggis- og varnarmál okkar. Því að það eru auðvitað fáar þjóðir ef nokkur sem eiga jafn mikið undir fjölþjóðasamvinnu í öryggis- og varnarmálum, sem og efnahags- og viðskiptamálum, og við Íslendingar. Ég undirstrika að þögnin sé nokkuð mikil. Ég er hrædd um að við séum ekki að gera nóg þegar kemur að því að verja öryggi okkar og treysta ríkið okkar.