Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá er það kannski ekki alveg nátengt fjárlagafrumvarpinu en þó er með ákveðnum hætti eðlilegt að við stefnumörkun í utanríkis- og varnarmálum birtist einhver sýn eða skoðun á það hvað er að gerast í alþjóðlega umhverfinu. Ég verð að segja alveg eins og er að það er erfitt að segja um varnarmálin sérstaklega að hlutirnir séu eins og áður. Eftir innrásina, eftir innrás Rússa inn í fullvalda ríki hefur allt breyst. Það hefur allt breyst í samskiptum við Rússa og samstarf við Rússland lítur allt öðruvísi út í ljósi þessarar innrásar, t.d. vegna málefna á norðurslóðum. Við sjáum það svo bersýnilega á aðild Finnlands og Svía að heimurinn hefur breyst og það eru ekki bara Finnar og Svíar sem þurfa að spyrja sig hvort ástæða sé til að bregðast við heldur hljótum við sömuleiðis á okkar eigin forsendum að spyrja stórra spurninga um það hvort sú leið sem við höfum markað til að verja okkar varnir og öryggi sé fullnægjandi í þessum gjörbreyttu aðstæðum. Þær aðstæður varða okkar nærsvæði. Þær varða norðurslóðirnar og þær varða okkar nágrannaríki. Þar erum við auðvitað með til grundvallar varnarsamninginn og aðildina að Atlantshafsbandalaginu en við verðum að komast aðeins á dýptina, bæði hér í þinginu og í almennri umræðu í samfélaginu um það á hvaða viðbrögð það kallar að heimurinn hefur breyst svona mikið á skömmum tíma.