Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:44]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Á síðasta sólarhring hafa átt sér stað pólitískar umræður um fjárlög. Til þess erum við náttúrlega hér, til að ræða um pólitík, pólitískar áherslur, og það er eðlilegt að það séu stundum skörp skil þar á milli. Um það snýst þetta allt saman. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart að þeir sem valdið hafa reyni að haga framsetningu mála og fjárlaga sér í hag. Á því er ég ekki hissa.

Það sem við í Samfylkingunni köllum aftur á móti eftir er að tækifæri gefist raunverulega til að ræða um pólitískar áherslur því að þetta hringl með hvaða hugmyndafræði er verið að beita í þessari ríkisstjórn ruglar alla í ríminu, ekki bara stjórnarandstöðuna heldur þjóðina. Við erum með einn flokk í fjármálaráðuneytinu sem rekur íhaldssama hægri fjármálastefnu og stendur teinréttur með þeirri stefnu, það fer ekkert á milli mála, og fyrir því á að bera ákveðna virðingu þótt fólk sé þar ósammála, það er ég reyndar innilega, en svo erum við með tvo flokka sem fylgja ríkisstjórninni en segjast vera velferðarsinnaðir, jafnvel jafnaðarmenn á tyllidögum. Samstarfsráðherrar hæstv. fjármálaráðherra, þar með talinn hæstv. forsætisráðherra, tala fyrir pólitískum áherslum sem fá ekkert brautargengi í þessum fjárlögum. Hvernig er hægt að takast á pólitískt í svona landslagi, þegar það liggur ekki fyrir hvað er verið að ræða um? Fólk getur ekki komið til dyranna eins og það er klætt. Nú er svo komið að ekki bara í opinberri umræðu sé villt fyrir almenningi, og þar með haldið aftur af opinskárri pólitískri umræðu, heldur er núna verið að leggja fram grundvallastefnumótunarskjal ríkisstjórnarinnar, fjárlögin, með sömu yfirhylmingu að leiðarljósi.

Hvað á ég við, virðulegi forseti? Í fyrsta lagi einkennir ógegnsæi framsetningu frumvarpsins, sem hefur stóraukist á tímum mikillar verðbólgu. Margra daga yfirlegu og þekkingu á fjármálum þarf til að komast að kjarna málsins. Mikil verðbólga gerir nær allar tölur ósambærilegar milli ára. Rekstri og fjárfestingu er blandað saman eftir hentugleika og mínir eigin útreikningar, sem ég þarf að fá staðfesta frá ráðuneytinu, benda til þess að samdráttur sé í nær öllum málaflokkum á rekstrarhliðinni þetta árið ef leiðrétt er fyrir verðbólgu síðustu mánaða og þeirri spá sem lagt er upp með fyrir næsta ár.

Raunvöxtur útgjalda í heild sinni í rekstri hjá ríkinu er um 2% en allur sá vöxtur er byggður á stækkun almenns varasjóðs. Ef stækkun sjóðsins er tekin til hliðar er samdráttur til staðar, sem snýr að punkti nr. 2. Hvað er eiginlega í þessum almenna varasjóði? Almennur varasjóður er ekki skúffufé ráðherra. Samkvæmt lögum um opinber fjármál er þessum sjóði er ætlað að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem rekja má til breyttra efnahagsaðstæðna, samdráttar í hagkerfinu, ófyrirséðra launahækkana og breytinga. Pólitískar ákvarðanir eiga ekki að sækja fjármagn í þennan sjóð. Fjárlög sem lögð eru fram á Alþingi Íslendinga í upphafi þingvetrar eiga að vera skýr hvað varðar pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar. Til þess er leikurinn gerður. Umræðan í salnum þessa dagana á ekki að snúast um hvað gæti mögulega gerst á næsta ári heldur hvað ríkisstjórnin ætlar sér raunverulega að gera og fjárlögin eru sterkasta vísbendingin um það. Hér á pólitískt aðhald sér stað, í fjárlögunum, með því að rýna í tölurnar á bak við loforðin. Ekki segja mér hvað skiptir þig máli, sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á sínum tíma, heldur sýndu mér fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli. En ef ríkisstjórnin ætlar að fela sínar pólitísku áherslur í ógagnsæjum og ólýðræðislegum varasjóði er þetta aðhald einfaldlega fokið út um gluggann. Við hæstv. ríkisstjórn hef ég þetta að segja: Hvernig væri að standa með ákvörðunum ykkar, senda út skýr skilaboð um hvað þið standið fyrir? Hvers vegna er þessi blekkingarleikur til staðar? Þingið og þjóðin þurfa að vita hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera. Á því byggir lýðræðisleg umræða.

Virðulegur forseti. Þjóðin hlustaði á hæstv. forsætisráðherra tala um mikilvægi þess að stunda ekki skautunarstjórnmál í stefnuræðu sinni hér fyrr í vikunni. Ég hef verið hugsi yfir þessu orðalagi, sem hefur reyndar heyrst áður frá hæstv. forsætisráðherra, hvað hún eigi raunverulega við. Á hún við að pólitísk umræða eigi að líða undir lok, að ekki sé hollt að takast á um fyrirkomulag samfélagsins? Hér inni er fólk sem er á öndverðum meiði. Er þetta ástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstjórn lætur eins og engin pólitík sé í þessum fjárlögum? Felst andskautunin, ef svo má að orði komast, í því að neita að horfast í augu við að hæstv. ríkisstjórn er að reka mjög pólitíska stefnu sem fylgiflokkar Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert um að segja?

Felst málflutningur hæstv. forsætisráðherra um að forðast skautunarstjórnmál í því að gefast upp á því að stunda stjórnmál? Ef til vill, það myndi ríma við framsetningu fjárlaga: Allt á reiki, óljóst, hliðarveruleiki skapaður í fjárlögunum þar sem stærstu einstöku upphæðirnar fara í viðbætur í almennan varasjóð, engin eyrnamerking. Þinginu og umsagnaraðilum um allt land er send ófullkomin útgáfa af grundvallarplaggi ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki í lagi, svo langt í frá.

Svo mun fjármálaráðuneytið, höfuð þessarar ríkisstjórnar, mæta með tillögur að breytingum nokkrum klukkustundum fyrir 2. umr. í þinginu og bera uppi allar breytingar á þessu frumvarpi sjálft. Hvernig var þetta aftur með hið þinglega og pólitíska aðhald? Hræðast hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar, einna helst hæstv. forsætisráðherra, raunverulega pólitíska umræðu? Þessi afgreiðsla er ekki tilviljun, hún hamlar lýðræðislegri umfjöllun um eitt mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar, setur þingmenn í þá stöðu að eyða verulegum tíma í það eitt að átta sig á hvað raunverulega er í gangi og breytingartillögur verða svo lagðar fram í svo miklum flýti síðar í vetur að þingið verður búið að afgreiða þetta áður en fólk sem hér inni situr veit einu sinni hvað það var að afgreiða.

Minnispunktarnir úr Valhöll sem dreift hefur verið til hæstv. ráðherra eru skýrir og hafa birst í umræðum hér á síðustu klukkustundum. Húsnæðispakki hæstv. innviðaráðherra er víst fjármagnaður, segja þau. Þetta er bara allt saman í varasjóðnum. Ef hæstv. innviðaráðherra getur haldið marga fundi um nákvæmlega hversu margar íbúðir hann ætlar að byggja með félagslegum áherslum á næsta ári, ef hæstv. forsætisráðherra getur ítrekað vitnað til þess hér í ræðustól hversu margar íbúðir hingað til hafi verið byggðar á félagslegum forsendum á tímum þessarar ríkisstjórnar, og ef fjármálaráðuneytið veit nákvæmlega hvað þær íbúðir kostuðu, 18 milljarðar fyrir 3.100 íbúðir hingað til, þá geta starfsmenn fjármálaráðuneytisins og hæstv. ráðherrar komið sér saman um hvað þetta húsnæðisátak gæti kostað á næsta ári. Þessar tölur liggja víst fyrir. Hæstv. ríkisstjórn á að mæta hingað með tölurnar svo þingið geti rætt nákvæmlega um þær. Um það á umræðan að snúast. Þar liggur pólitíkin. Það er ekki hægt að hliðarsetja umræðuna með því að stilla upp einhverjum hliðarveruleika í fjárlögunum í formi varasjóðs undir alvaldi hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Nú fer hv. fjárlaganefnd af stað í sinni vinnu. Það er ljóst að það mun taka tíma fyrir nefndarmenn, sem hér eru til að sýna pólitískt aðhald og taka þátt í umræðu um samfélagið, pólitískri umræðu, að átta sig á hvað gengur raunverulega á í fjárlögum ríkisins. Eftir öllum þessum upplýsingum verður kallað. En þetta er ekki góð leið til að byrja þessa vinnu. Við virðumst vera komin á einhvern skrýtinn stað í íslenskri pólitík.