Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er margt gott sem hefur komið fram í umræðunni hérna síðastliðna tvo daga, margt sem fjárlaganefnd þarf að vanda að fara ofan í. Hér er búið að ræða bæði stórt og smátt í málaflokkum fagráðherra og ýmislegt sem mér þykir áhugavert og vert er að fara betur yfir. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra hvað það varðar að það sé gott að frumvarpið komi fyrr fram. Mér finnst það heldur ekki galin hugmynd að það kæmi fram í ágústbyrjun og við hefðum mánuð til að vinna með það og fá umsagnir og annað slíkt. Svo hæfist þing og við gætum unnið úr því og það gæfi okkur kannski meira rými til annarrar vinnu fyrir 2. umr. Það er alla vega eitthvað sem má vel velta upp af því að ráðherrann minntist á það hér áðan.

Ég ætla að segja það hér í pontu að nefndin hefur óskað eftir því, og ráðherra bauð fram alla sína aðstoð, og beðið um niðurbrot á rekstri og fjárfestingu í töflu eftir málaflokkum. Ég vona svo sannarlega að það verði eitthvað sem við fáum sent, samt helst ekki á mánudagsmorgun rétt fyrir fund heldur væri gott að það kæmi um helgina. Þetta eru tölur sem við teljum að ættu að vera til því að það er alveg rétt, það er mjög ógagnsætt að hafa þetta þannig að við áttum okkur ekki á hvað er rekstur og hvað eru fjárfestingar, eins og þingmönnum hefur orðið tíðrætt um hér í dag og í gær.

Ég vil samt að segja varðandi það að ríkisfjármálunum hafi verið beitt af krafti í Covid að við sjáum sannarlega að það skilar sér. Það skilar sér í auknum efnahagsumsvifum og mun betri skuldastöðu en við gerðum ráð fyrir í okkar allra björtustu sviðsmyndum. Þetta ár hefur komið miklu betur út en við þorðum að vona.

Í fyrri ræðu minni kom ég inn á helstu áskoranir og í hvað stóru peningarnir fara á komandi misserum. Það hefur talsvert verið rætt um tekjuöflunina og ég vil segja í því samhengi að ég fagna frumvarpi hæstv. ráðherra sem hann ætlar að leggja fram um útsvarsgreiðslur vegna fjármagnstekna einstaklinga. Það kom einmitt fram í máli forsætisráðherra í morgun að fjármagnstekjur hafi aukist verulega hjá tekjuhæsta hópnum í fyrra og að dreifing þeirra hafi verið mun ójafnari en almennt í launatekjuskalanum. En mér finnst þetta mál ekki síst mikilvægt vegna stöðu sveitarfélaga. Sjálf hef ég verið að skoða hvernig reiknuðu endurgjaldi vegna umsjár lögaðila, sem hvorki greiða tekjuskatt né tryggingagjald, er háttað. Ég tel að það sé ríkt tilefni til að skoða þau mál til hlítar. Það er mikilvægt að skattkerfið okkar stuðli að félagslegu réttlæti og jöfnuði í samfélaginu og það er mikilvægt að kerfið standi undir markmiðum sínum um tekjuöflun til handa ríkissjóði og að engir aðilar, fyrirtæki eða hvaða tegund af starfsemi sem er, standi utan þess. Það hefur sýnt sig með fjölgun alls konar félagaforma, það hefur aukist alveg gríðarlega, að samt hafa skatttekjur í ríkissjóð frekar lækkað en hitt.

En í ljósi umræðunnar um þessar óverulegu skattahækkanir á munaðarvörur, svo sem áfengi og tóbak, sem verið hefur hér og úti í samfélaginu, þá tel ég að þetta séu hækkanir sem styðja við önnur markmið, til að mynda við lýðheilsusjónarmið og gætu jafnvel skilað meiri ábata í ríkissjóð og til samfélagsins ef þær leiða til minni neyslu.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég segja að það er fjölmargt gott að gerast þrátt fyrir bölmóðinn sem hér heyrist hjá stjórnarandstöðunni í þingsal, að hér sé eiginlega allt á vonarvöl. Ég held að reynslan og niðurstaðan sem við horfum framan í núna, bæði í þessu frumvarpi sem við erum að fjalla um hér og það sem af er ársins, sýni svo að ekki verður um villst að það er mjög margt gott að gerast. Við leggjum áfram áherslu á öflugan stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun, enda hefur það sýnt sig að það er mjög mikilvæg stoð í efnahagnum og styður um leið við áframhaldandi vaxtargetu hagkerfisins. Og svo ég taki nú dæmi um eitthvað annað en það sem ég tók í minni fyrri ræðu þá er ýmislegt á döfinni í félags- og velferðarmálum, t.d. er tímabær heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk sem miðar að því að auka lífsgæði þess hóps. Það er hugsað til þeirra sem yngri eru og hafin er innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Það er verið að móta stefnu og aðgerðaáætlun um barnvænt Ísland og með því er verið að framkvæma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Svo er unnið að þróun og innleiðingu mælaborðs, sem ég tel afar mikilvægt, sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna og framkvæmd á þessu. Loks eru fjármagnaðar aðgerðir til að bregðast við löngum biðtíma eftir þjónustu fyrir börn. Heildarframlög til stuðnings við fjölskyldur og börn hækka um ríflega 635 milljónir.

Eins og ég sagði þá tel ég, þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið, að útlitið sé með nokkuð góðu móti. Ég vil um leið segja að það er brýnt að endurheimta styrka fjárhagsstöðu ríkissjóðs og tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma. Sú vandasama staða sem er uppi núna kallar á að ríkissjóður leggist áfram á árar með peningastefnunni og stuðli að lækkandi verðbólgu og efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Verkefnið fram undan er þess vegna fjölþætt og mikilvægt er líka að hafa gott samráð við aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfinguna því að tryggja þarf gott samspil hagstjórnarinnar og kjarasamningsgerðarinnar sem fram undan er með það að markmiði að lífskjör allra verði bætt og kjarabætur heimilanna undanfarin ár verði varanlegar.

Virðulegi forseti. Ég vonast að sjálfsögðu eftir góðri samvinnu í fjárlaganefnd um þetta vandasama verk sem fram undan er. Við höfum hug á því að reyna að skerpa dálítið á vinnulaginu þannig að við köllum kannski ekki alveg jafn marga til þrátt fyrir að umsagnafjöldinn verði eflaust ekki minni en undanfarin mörg ár. Við teljum að það sé kannski heppilegra að nýta tímann betur í nefndinni og nýta umsagnir og kalla þá eftir viðbót, teljum við þess þörf. En að sjálfsögðu tökum við auðvitað gesti á okkar fund sem við teljum alveg bráðnauðsynlegt að hitta og eiga samtal við.