Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er komið að lokum 1. umr. um fjárlagafrumvarp og ég hef nú reynt að fylgjast með umræðum. Það er ekki mikið fjör í þessari umræðu. Ég hef verið viðstaddur fjörugri umræðu þar sem menn hafa tekist á af meiri hörku. Kannski bendir það til að sú gagnrýni sem hér er sett fram af stjórnarandstöðunni risti ekki mjög djúpt. Ef til vill er það mislestur af minni hálfu og vinir mínir í stjórnarandstöðu bíða betra færis.

Hitt er annað mál að þetta fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir myndi auðvitað líta svolítið öðruvísi út ef ég hefði einn samið það. Það er alveg ljóst og kemur engum á óvart. Ég hygg að flestir þingmenn gætu sagt eitthvað svipað. Í þessum lokahring 1. umr. var kvartað yfir því að fjárlagafrumvarpið væri þannig úr garði gert að menn áttuðu sig ekki á stefnu ríkisstjórnarinnar. Það kemur á óvart. Annaðhvort hafa menn ekki lesið frumvarpið eða fylgst með því sem hefur gerst hér undanfarin ár vegna þess að þetta fjárlagafrumvarp er í beinu framhaldi af þeirri stefnu sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur fylgt allt frá 2017, stefnu sem m.a. gerði það að verkum að þrátt fyrir heimsfaraldur á liðnu ári jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna launa um 5,1%. Allir tekjuhópar nutu kaupmáttaraukningar, mest þeir sem lægstu launin hafa og minnst sem hæstu launin hafa. Þessi stefna birtist og grundvallast í því að atvinnuleysi er minna en þeir bjartsýnustu þorðu að vona að staðan yrði í þeim málum á haustmánuðum. Hér er öflugri hagvöxtur og meiri en í þeim löndum sem margir í þessum sal sækja sínar fyrirmyndir til og vitna óspart til. Stefnan birtist í því að skattbyrði tekjulágra hefur lækkað töluvert, mest meðal þeirra sem minnstar ráðstöfunartekjur hafa, birtist í því að frá 2017 hafa útgjöld á föstu verðlagi til velferðarmála, almannatrygginga, heilbrigðiskerfisins o.s.frv. hækkað um 123 milljarða. Þeirri vegferð er haldið áfram í því frumvarpi sem fyrir liggur. Og svo tala menn um að það birtist engin stefna í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Svo er annað mál að ég tel að menn eigi að skoða ýmislegt og ég get alveg skilið þá gagnrýni sem hefur komið hér fram á frumvarp sem tengist óhjákvæmilega fjárlagafrumvarpinu, svokallaðan bandorm, krónutöluhækkanir. Ég hygg að það sé ástæða til þess og löngu tímabært að við endurskoðum hvernig staðið er að breytingum á svokölluðum krónutölusköttum og yfir höfuð hvernig þeir eru lagðir á. Það eru rök fyrir því í mínum huga að lögfesta þá breytingu þannig að hún sé algjörlega gegnsæ og fyrirsjáanleg. Til dæmis má velta fyrir sér að það sé sagt í lögum að krónutölugjöld skulu aldrei hækka meira en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það er eitt viðmið. Önnur viðmið gætu komið til greina. En ef menn vilja koma til móts við þessa gagnrýni þá skal þingheimur hugleiða hvort ekki sé efnisleg ástæða til að draga til baka tillögu í bandormi um að hækka nefskattinn útvarpsgjald um 388 milljónir. Það myndi létta aðeins undir, ekki síst hjá hinum tekjulægri sem geta ekki vikið sér undan því að greiða útvarpsgjaldið algerlega óháð tekjum.

Frú forseti. Sú gagnrýni sem ég hlustaði mest á og hefur komið fram, þó ekki hjá mjög mörgum þingmönnum, er sú að því miður halda útgjöld ríkissjóðs áfram að aukast. Ég hef verið einn þeirra sem hef reynt að setja fótinn á bremsuna en alltaf toga einhverjir í hana til baka. Ég hef áhyggjur af því að við séum að fara ansi geyst, ekki bara í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er að verða krónískt vandamál. Þess vegna held ég að við komumst ekki hjá því að endurskoða lög um opinber fjármál sem tóku gildi 2016 og voru mikið framfaraspor á sínum tíma til að innleiða hér ákveðinn aga í ríkisfjármálum eða opinberum fjármálum, sérstaklega með skuldareglunni. En ég held að við verðum að horfast í augu við að þörf er á auknum aga í opinberum fjármálum, ríkisfjármálum sérstaklega. Við stuðlum að honum fyrst og fremst með því að leiða í lög útgjaldareglu. Við getum síðan velt fyrir okkur undir hvaða kringumstæðum slíkar reglur mættu víkja, það væru alvarlegar kringumstæður, t.d. Covid-aðstæður. Ég held það væri skynsamlegt og til bóta að það sé lögfest að útgjöld ríkisins geti aldrei hækkað meira en nemur raunvirði eða raunhækkun landsframleiðslu þótt ég hefði helst viljað ganga lengra. Ég tel þetta skipta okkur verulegu máli um leið og við þurfum auðvitað að átta okkur á að við stöndum frammi fyrir því á komandi árum og áratugum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið. Við getum þó ekki réttlætt það nema við gerum tvennt eða jafnvel þrennt um leið.

Í fyrsta lagi verðum við að gera auknar kröfur um meðferð opinbers fjár, ekki síst í heilbrigðiskerfinu, að við fáum það að raunvirði sem greitt er fyrir, að við komum í veg fyrir sóun fjármagns og að fólk sem er tryggt og á rétt á þjónustu fái þá þjónustu sem veitt er. Þannig eigum við að nýta framtak einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Við eigum að kasta út í hafsauga neikvæðum viðhorfum til einkaframtaks í heilbrigðisþjónustu vegna þess að við erum öll tryggð og eigum kröfu á þjónustu. Það skiptir ekki öllu máli hvort ríkið eða einkaaðilar veiti þá þjónustu svo lengi sem við stöndum öll jafnfætis í þeim efnum.

Í öðru lagi komumst við ekki hjá því, frú forseti, um leið og við þróum heilbrigðiskerfið í átt til nútímans, að hleypa ferskum vindum nýsköpunar þangað inn. Það mun verða ein stærsta bremsan á útgjaldaaukningu til heilbrigðismála.