153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Ragnars Arnalds.

[15:01]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Ragnar Arnalds, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést fimmtudaginn 15. september, 84 ára að aldri.

Ragnar Arnalds var fæddur í Reykjavík 8. júlí 1938. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir Laxdal kaupkona og Sigurður Arnalds, útgefandi og stórkaupmaður. Ragnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958, nam heimspeki og bókmenntir við sænska háskóla tvo vetur og varð cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands 1968. Ragnar fékkst við kennslu á yngri árum, bæði hér í borginni og síðar í Varmahlíð í Skagafirði þar sem hann var búsettur lengi.

Ragnar Arnalds var aðeins 24 ára gamall er hann var kosinn alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlandskjördæmi vestra sumarið 1963, þá næstyngstur þeirra sem sest höfðu hér á þingbekki. Ragnar féll út af þingi við kosningar fjórum árum síðar, 1967, en var kosinn á ný 1971 og sat samfellt á Alþingi til ársins 1999, alls á 38 löggjafarþingum.

Ragnar varð fyrsti formaður Alþýðubandalagsins er það var gert að stjórnmálaflokki 1968 og naut þá óskoraðs trausts ólíkra hópa sem sameinuðust undir einu merki. Því forystuhlutverki gegndi hann fram til ársins 1977, á stormasömum árum í íslenskum stjórnmálum. Eftir sögulegar kosningar 1978 varð Ragnar mennta- og samgönguráðherra, en aðeins í rúmt ár, og skömmu síðar, eftir óvænt þingrof og kosningar, varð hann fjármálaráðherra fram í maí 1983.

Eftir að ráðherradómi lauk dró Ragnar sig út úr forustusveit flokks síns og tók að sinna hugðarefnum sínum meira en áður. Listrænir hæfileikar hans lágu á mörgum sviðum, hann samdi vinsæl leikrit, skrifaði skáldsögur og stundaði tónsmíðar. Jafnframt skrifaði hann tveggja binda sjálfsævisögu.

Ragnar Arnalds var ötull stjórnmálamaður og dugandi fulltrúi kjósenda sinna fyrir norðan, lét ógjarnan hlut sinn ef honum fannst mikið undir. Stjórnmálaafskipti hans hófust í Samtökum herstöðvaandstæðinga og frá þeirri sannfæringu sinni að Ísland ætti að vera herlaust og hlutlaust hvikaði hann aldrei. En þrátt fyrir róttækar skoðanir og málflutning á Alþingi naut Ragnar hvarvetna virðingar fyrir framgöngu sína, sanngirni og vinsemd í samskiptum við flokksmenn jafnt sem andstæðinga og var gamansamur maður. Hann var oft formaður í þingflokki sínum og síðasta kjörtímabilið var hann 1. varaforseti Alþingis og var skýr og fumlaus við fundarstjórn. Þar naut sín vel yfirvegun hans og rósemi.

Ragnar gegndi á þingmannsferli sínum margháttuðum trúnaðarstörfum og vann að hagsmunamálum landsbyggðarinnar í nefndum og hjá opinberum stofnunum. Mennta- og menningarmál lét hann sérstaklega til sín taka.

Ég bið hv. alþingismenn að minnast Ragnars Arnalds, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]