Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

húsnæðisuppbygging samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt að fjárlagafrumvarpið er komið fram og það getur aldrei orðið þannig að fjármálaráðherra leggi fram fjárlagafrumvarp og taki fram fyrir hendurnar á einstökum ráðherrum sem eru með mál í athugun. Við ákveðum ekki hvað við ætlum að gera í húsnæðismálum með því að setja inn einhvern fjárlagalið í fjárlögum. Þetta virkar ekki þannig. Fjárlögin lýsa ríkisfjármálunum, fjárheimildum einstakra ríkisaðila, lykilstofnana. Við fjöllum þar um fjármagnskostnaðinn og afganginn, hvernig hagkerfið lítur út eins og við gerum ráð fyrir á grundvelli þjóðhagsspár. En þegar kemur að einstaka málaflokkum, eins og þeim sem hv. þingmaður er að fjalla um hér, er að sjálfsögðu ekki hægt að sem sagt fara í einhvers konar höfrungahlaup fram fyrir ráðherra málaflokksins. En fyrir liggur að í undirbúningi er vinna sem verður kynnt núna á haustmánuðum. Þannig segir á blaðsíðu 97 í frumvarpinu:

„Starfshópur um húsnæðisstuðning er nú að störfum með það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga á grundvelli þeirrar vinnu og á grundvelli tillagna starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, frá maí 2022, er gert ráð fyrir breytingum og auknum húsnæðisstuðningi ríkisins frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.“

Það er síðan annað mál hvort að gera eigi ráð fyrir einhverju svigrúmi til slíkra áherslumála í frumvarpinu eins og við erum að gera í varasjóðnum. Ef við létum það ógert þá myndu öll ný útgjöld verða til þess að afkoman myndi versna. Þannig að mér finnst það vera ábyrgt og varfærið að gera ráð fyrir því í varasjóðnum að einhver slík útgjaldamál geti komið til umræðu hér á þinginu fyrir áramót án þess að það bitni á heildarafkomunni sem getur síðan haft áhrif á skuldastöðuna o.s.frv. Mér finnst vera ágætlega um þetta mál búið.