Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

húsnæðisuppbygging samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef tjáð mig um þetta líka eins og hæstv. ráðherrar sem vísað er til. Ég hef sagt það sem mína skoðun að mér finnst það ekki sanngjarnt að þeir sem ekki reikna sér endurgjald vegna eigin vinnu en hafa háar fjármagnstekjur geti notið þjónustu sveitarfélaga án þess að leggja nokkuð af mörkum í skattstofna sveitarfélagsins, njóta þjónustunnar án þess að taka þátt í að greiða fyrir hana þrátt fyrir að hafa mjög góð fjárráð eins og fjármagnstekjur geta verið til vitnis um. Þetta er það sem er verið að vinna að úttekt á í mínu ráðuneyti og við munum koma með tillögur. Það er ekki tímabært að úttala sig um það hvort það kæmi einhvers konar sérstakt álag vegna útsvars eða með hvaða öðrum hætti við myndum tryggja sveitarfélögunum sanngjarnt framlag. En mér finnst að þetta snúist á endanum um að þeir sem njóta þjónustunnar, hafa góð efni á að greiða fyrir hana, geri það.