Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

fjölgun hælisleitendamála.

[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar 1. umr. fjárlaga var hafin barst tilkynning frá ríkislögreglustjóra þar sem lýst var yfir hættuástandi á landamærum. Það var vegna þess mikla fjölda hælisleitenda sem komið hefur til landsins að undanförnu og spár um að þessi fjöldi myndi enn aukast. Hæstv. ráðherra gerði þetta að umtalsefni í umræðu um fjárlög og svaraði fyrirspurnum frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni og var að mínu mati tiltölulega afdráttarlaus. Ástæða er til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hann viðurkenndi að þetta hefði ekki gerst af sjálfu sér, þetta væri afleiðing af stefnu stjórnvalda. Hæstv. fjármálaráðherra var síðar í umræðum um fjárlögin enn afdráttarlausari hvað þetta varðar.

Nú liggur fyrir að gerð verður enn ein tilraunin, líklega sú fimmta, til að lögleiða frumvarp hæstv. ráðherra um útlendinga, þó að það sé nú líklega orðið heldur útþynnt og hafi ekki mjög veruleg áhrif. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra í ljósi þessarar stöðu: Hvers er að vænta frá hæstv. ráðherrum til að bregðast við þessu ástandi og hafa áhrif á það? Ég er sammála hæstv. dómsmálaráðherra og raunar fleiri hæstv. ráðherrum sem tjáðu sig í umræðu um fjárlög, að það sé mikilvægt að gera greinarmun á því sérstaka ástandi sem er vegna stríðsins í Úkraínu, sem er tímabundið ástand þar sem við ráðumst í sérstaka aðgerð til að hjálpa fólki þaðan, en að það þurfi líka og sé löngu tímabært að huga að þróun hælisleitendamála almennt þar sem fólk kemur í auknum mæli af ýmsum ástæðum en þó sérstaklega til Íslands. Hlutfallslega áttfalt fleiri til Íslands en Noregs og Danmerkur. Hvernig bregst hæstv. ráðherra við þessu ástandi?