Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

fjölgun hælisleitendamála.

[15:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta var ágætisyfirferð hjá hæstv. ráðherra en ég bíð enn svara við spurningunum: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra málaflokksins bregðast við þessu ástandi? Ástandið er þannig að það er talað um möguleika á því að reisa þurfi flóttamannabúðir á Íslandi. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að við þekkjum það öll að fjöldi flóttamanna frá Úkraínu hefur auðvitað töluvert um fjöldann að segja akkúrat þessa dagana en þróunin var hafin löngu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Við getum ekki látið þetta ástand, sem við ætlum að gera okkar allra besta til að takast á við og ég veit að hæstv. ráðherra er mjög einbeittur í því, verða til þess að við lítum ekki á stærri þróun sem var hafin áður en að Rússar réðust inn í Úkraínu. Það kallar á viðbrögð eins og til að mynda stjórnvöld í Danmörku hafa gert með gjörbreyttri stefnu. En hvers er að vænta af ríkisstjórn Íslands í þessum málaflokki?