Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

kostnaður við innleiðingu tilskipana.

[15:35]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Hér í þessum sal hafa verið hörkuduglegir þingmenn í á aðra öld að láta sér koma til hugar sitthvað samfélaginu til gagns og framdráttar. Á síðari tímum hafa um annað hundrað frumvarpa verið samþykkt sem lög og allt kostar þetta, allt er þetta hengt um hálsinn á okkur og margt af þessu er mjög þarft og gott. Þessu til viðbótar eru auðvitað um 650 þingmenn í Evrópu sem eru með einhverja 30.000 hörkuduglega aðstoðarmenn og embættismenn að skrifa eitthvað sem okkur ber að innleiða og sumt kallar á lagabreytingar og allt endar þetta utan um hálsinn á okkur. Það hefur stundum hvarflað að mér hvort við séum of viljug og kannski hraðvirk í því að meðtaka þetta allt svona möglunarlaust og hvort embættismannakerfi okkar ætti kannski að setja fleiri spurningarmerki við og sýna kannski vott af borgaralegri óhlýðni við þessa ágætu embættismenn alla sem vilja stafa ofan í okkur allt frá skóstærðum og banönum eða hvað sem það nú er. En ég velti því fyrir mér, og því spyr ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hvort til mótvægis við allar þessar árlegu innleiðingar ættum við að hefja grisjun og fara að einbeita okkur að útleiðingum á því sem á ekki lengur við, 100 eða 50 eða 30 árum síðar, eitthvað sem var barn síns tíma, eitthvað sem flokka mætti undir gæluverkefni jafnvel. Væri það eitthvað sem við gætum gert til að koma til móts við það sem hér hefur verið sagt, að ríkisbáknið er auðvitað orðið ansi mikið og landsmenn ansi hoknir af öllum þessum álögum, öllum þessum fyrirskipunum um þetta og hitt sem þenur út embættismannakerfið og kostar heilmikið?