Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

kostnaður við innleiðingu tilskipana.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Jú, ég get nú tekið undir þetta. Ég verð samt að halda því til haga að á síðasta kjörtímabili var unnin vinna í þessa veru í atvinnuvegaráðuneytinu og þeirri vinnu lauk með því annars vegar að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom hingað fyrir þingið, eða afsakið, ég held að hann hafi reyndar náð að gera það allt saman með reglugerðum að fella úr gildi ýmsar reglur, og reyndar tekið af skarið með frumvarpi um að ýmis löggjöf væri fallin úr gildi. Þá fór líka fram vinna í því ráðuneyti, í samstarfi við OECD, við að kortleggja ýmiss konar séríslenskar reglur t.d. varðandi atvinnutengd réttindi. Niðurstaðan í því var sú að við værum með mun strangari reglur en tíðkuðust í OECD-ríkjunum fyrir ýmiss konar starfsheitum og öðrum atvinnutengdum réttindum. Og það kom mér á óvart eftir að sú vinna var gerð opinber, þessi meginniðurstaða um hversu litlar undirtektir fengust, sérstaklega úr atvinnulífinu, við því að fara í alvöru einföldun á þessu regluverki. En það virðist vera þannig að við séum með dæmi um að starfsstéttir vilji halda sérstaklega þétt utan um sína hagsmuni og hindra að aðrir komist að, án þess að hafa gengið sömu svipugöngin og þeir sem á undan fóru, á meðan öll rök hníga til þess að við eigum að létta af þessum íþyngjandi kvöðum og opna hagkerfið fyrir hæfileikum sem eru úti um allt í landinu okkar, í samfélaginu, sem geta nýst til að skapa verðmæti og hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd.

Ég nefni þetta bara sem dæmi um eitthvað sem hefur verið nýlega á döfinni. Mjög merkileg vinna sem var unnin en fékk einhvern veginn ekki vængi.