Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er að gerast í raun og veru er að við erum að hverfa frá því sem var ákveðið fyrir nokkrum árum, að hækka um minna en verðlagsbreytingar. En það hefur ávallt verið tryggt hér á Alþingi að þessir helstu gjaldstofnar ríkisins héldu í við verðlag. Það er það sem sagan segir okkur. En af því að hv. þingmaður vill halda því fram að ég hafi sérstaklega gætt þess að allir þessir gjaldstofnar héldu í við verðlag þá er það ekki rétt vegna þess að þegar sagan er skoðuð þá er það einmitt í minni tíð sem þessir gjaldstofnar hafa rýrnað að verðgildi. Það er sú saga sem hefur teiknast upp í minni tíð í fjármálaráðuneytinu. Hv. þingmaður ætti kannski að velta því fyrir sér hvers vegna Samfylkingin, sem fer nú fyrir málum í Reykjavíkurborg, er að gera nákvæmlega þennan sama hlut. Borgarstjórn hefur samþykkt breytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar í samræmi við verðlagsbreytingar umfram forsendur fjárhagsáætlunar og áhrif þeirra á rekstur. Leiðréttingin nemur 4,5% og tekur gildi 1. september — á miðju ári fer Reykjavíkurborg inn í gjaldskrárnar sínar og hækkar (Forseti hringir.) til að tryggja að gjaldskrár Reykjavíkurborgar séu verðtryggðar og þær hækkanir leggjast allar á þá sömu gjaldstofna og hv. þingmaður hefur svona miklar áhyggjur af.