Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólkið sem finnur mest fyrir verðlagshækkunum í landinu er fólkið sem við höfum verið að hugsa til þegar við hér á miðju ári hækkuðum bætur almannatrygginga, hækkuðum sömuleiðis húsaleigubætur, hækkuðum barnabótaaukann, greiddum út sérstakan barnabótaauka til fjölskyldna með börn (Gripið fram í.) og við erum að bæta í þannig að bætur almannatrygginga hækka milli ára um 9%. Þetta eru verulegar hækkanir, einhverjar þær mestu í sögunni frá einu ári til þess næsta í almannatryggingakerfinu. En í einum manni höfum við fengið að sjá þann sem talar fyrir verðtryggingu gjalda á sveitarstjórnarstiginu og gegn verðtryggingu gjalda í opinbera kerfinu og mér finnst þetta vera dálítið sérkennilegur málflutningur vegna þess að verðhækkanir til samræmis við verðlag á gjöldum á sveitarstjórnarstiginu eru bara greiddar af fólkinu sem býr í borginni alveg með nákvæmlega sama hætti og við höfum verið að rekja hér. Ég hef fært rök fyrir því að það séu ekki aðstæður núna til þess að horfa upp á raunlækkun þessara gjalda.