Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Breytingar á frítekjumarki öryrkja munu ekki koma fram í fjárlagafrumvarpinu heldur með breytingum á lögum um almannatryggingar. Eins og ég vék stuttlega að í minni framsögu þá stendur yfir vinna í ráðuneyti félagsmála og vinnumarkað við að endurmeta einstaka bótaflokka og þróa kerfið fram á við. Ég er nú bara einfaldlega sammála hv. þingmanni, að eitt stærsta hagsmunamál öryrkja er að fá endurskoðun á frítekjumarkinu. Ég tel reyndar að það eigi líka við um ellilífeyrisþega, að við getum fjármagnað hækkun á frítekjumarki ellilífeyrisþega. Hérna erum við að tala um þann mikilvæga rétt að geta séð fyrir sér og sínum, að geta bjargað sér sjálfur. Þessi frítekjumörk eru nauðsynleg til að dreifa takmörkuðum fjármunum en þau hafa staðið óbreytt núna í nokkurn tíma og þess vegna er orðið mjög tímabært að þau verði endurskoðuð.