Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stutta svarið er bara það að þessar aðgerðir hafa skilað gríðarlega miklum árangri. Við sjáum það á samsetningu bílaflotans sem verið er að flytja inn. Þetta hefur skilað mjög miklum árangri. Mörg heimili eru farin að nota ýmist tengiltvinnbíla, sem við ívílnum reyndar ekki með sama hætti lengur, eða rafmagnsbíla. En punkturinn minn er kannski bara sá að það þarf ekki svona mikinn mun til að viðhalda hvatanum. Ég skil t.d. ekki hvers vegna við ættum að vera að fella niður öll vörugjöld og endurgreiða virðisaukaskatt af 20 millj. kr. lúxusbíl, sem er rafmagnsbíll. Af hverju þurfum við að gera það? Hvers vegna ekki að taka einhver lágmarksvörugjöld af slíkri bifreið eins og öðrum bifreiðum? Ég er ekki að segja að þetta þyrfti að gilda um 4–5 millj. kr. bíl, þarna er ég að vísa til þess að við ættum kannski mögulega að vera bara með einhvern fastan stuðning í krónutölu. En mér finnst mikið gert í að niðurgreiða bíla sem eru hreinræktaðir lúxusbílar, ofboðslega aflmiklir, fokdýrir bílar sem eru væntanlega hvergi með jafn mikla ívilnun og hér á Íslandi. Þetta segi ég (Forseti hringir.) um leið og ég mun áfram berjast fyrir því að það verði ívilnanir þannig að þessum markmiðum okkar verði náð. (Forseti hringir.) Ég held að það sé enginn ágreiningur milli mín og hv. þingmanns um að það verði að vera hvatar áfram til staðar.