Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[17:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023. Þegar grannt er skoðað þá eru það tvö frumvörp sem verið er að fjalla um hér, um vörugjöld og síðan um umhverfis- og auðlindaskatta. Ég ætla kannski ekki að eyða miklum tíma í dag í þetta. Þetta verður væntanlega til umræðu næstu vikur og mánuði þar sem við þurfum að láta þetta fylgja fjárlagafrumvarpinu.

Mig langar samt að fara yfir nokkur atriði sem ég er að velta fyrir mér, og hef verið að velta fyrir mér alveg frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram. Mig langar að nefna þau atriði sem nefnd eru í greinargerð frumvarpsins. Þetta eru ansi mörg mál en nokkur sem mér finnst standa upp úr og þarfnast meiri umræðu en önnur. Það eru í fyrsta lagi þessar hækkanir sem boðaðar eru á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki, en þarna er verið að boða að þetta eigi allt að hækka um 7,7% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2023. Síðan er nefnt að draga eigi úr afslætti áfengisgjalds og tóbaksgjalds sem lagt er á í tollfrjálsum verslunum. Þar er væntanlega verið að tala um brennivínið í fríhöfninni. Síðan er talað um breytingar á álagningu vörugjalda þar sem lagt er til að sérstakt 5% vörugjald skuli lagt á allar nýjar bifreiðar, burt séð frá því hvernig þær eru drifnar áfram. Síðan er nefnd tvöföldun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds og breyting á losunarmörkum. Síðast langar mig að nefna að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar óbreyttar um eitt ár.

Þetta eru atriði sem stinga mig mest við fyrstu athugun. Það liggur fyrir, eftir þá örfáu daga sem liðnir eru frá því að fjárlagafrumvarpið leit dagsins ljós, að margar þessara breytinga eru mjög umdeildar. Það hefur verið þannig að margir hafa brugðist við og gert athugasemdir við fjárlagafrumvarpið. Það má t.d. nefna aðila sem hafa gert athugasemdir við breytingar á vörugjöldum á bifreiðar, en það eru m.a. Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Forsvarsmenn bílasölufyrirtækja hafa líka tjáð sig og m.a. nefnt að bílar geti hækkað um allt að 2 milljónir. Síðan hefur orkumálastjóri tjáð sig og minnt á loftslagsmarkmið og á það hefur verið minnt að losun gróðurhúsalofttegunda hafi aukist á síðasta ári um 3%, á milli áranna 2020 og 2021. Þetta er auðvitað áhugavert í ljósi þess að við höfum gengist undir skuldbindingar sem eru í raun og veru miklu meiri en alþjóðasamfélagið hefur verið að leggja upp með.

Mig langar að fá að grípa aðeins niður í grein sem birt var á vísir.is eftir formann Samtaka verslunar og þjónustu og forstjóra Brimborgar undir heitinu: „Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum — eða hvað?“ Þar segir:

„Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda á næstu átta árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.“

Síðan segir:

„En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.“

Svo mörg voru þau orð. Maður hlýtur af þessu tilefni að velta því fyrir sér hvernig við ætlum að fjármagna rekstur samgöngumannvirkja. Það er í mínum huga annar hlutur en að reyna að uppfylla þau skilyrði sem við erum búin að setja okkur um loftslagsmarkmið og vont þegar verið er að stilla þessu upp hvoru gegn öðru. En að sjálfsögðu hljótum við að horfa til þess að eigendur farartækja, hver sem farartækin eru, greiði til framtíðar fyrir nýtingu á vegum. Það breytir í sjálfu sér engu hvort bensínbíllinn keyrir veginn eða rafmagnsbíllinn, þeir slíta báðir vegunum. Við þurfum að finna eitthvert fyrirkomulag sem gerir það að verkum að sá sem nýtir borgi með einhverjum hætti.

Virðulegur forseti. Mig langar líka að nefna það sem mér þykir alvarlegt í þessu fjárlagafrumvarpi og það eru þessar svokölluðu krónutölubreytingar sem verið er að hækka um einhverjar krónur, miðað við 7,7% hækkun. Ég hjó strax eftir þessu þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og þetta er ekki í neinu samræmi við það sem áður hefur verið gert þegar unnið hefur verið að því að reyna að bregðast við of hárri verðbólgu. Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan að ríkisstjórnin hefði horft á verðbólgumarkmið Seðlabankans þegar verið væri að hækka þessi svokölluðu krónutölugjöld og það hefur auðvitað hjálpað til við að halda verðbólgu niðri.

Mig langar að nefna þjóðarsáttina sem gerð var árið 2000. Margir brugðust illa við, það voru meira að segja gerðar lagabreytingar til að taka launabreytingar af fólki. En mig langar líka að nefna kjarasamninga sem voru gerðir árið 2013. Þar var almenna hækkunin 2,8% og brugðust margir illa við. Haldinn var fundur í Háskólabíói, held ég, þar sem 2,8% var sett upp á borð. Það trúði enginn á þessa 2,8% hækkun sem ASÍ hafði gert eða félög innan ASÍ. En bæði þegar þjóðarsáttin var samþykkt og síðan í þessum kjarasamningum 2013 þá náðist verðbólgan niður. Árið 2013 var farið í aðgerðir af aðilum vinnumarkaðarins og þá var haft samband við sveitarstjórnir og verslanir og samtal átti sér stað á milli þeirra aðila um að hækka ekki umfram þann kjarasamning sem búið var að gera. Niðurstaðan af því, af þessari 2,8% hækkun, varð sú að verðbólga fór niður í 0,8%. Það skiptir því máli hvaða merki er gefið. Ég get ekki séð, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin sé með þessu háttalagi sínu að senda rétt merki út í samfélagið. Ég fæ ekki séð að þetta geti verið nema búið sé að festa það í sessi og gera það að veruleika að verðbólgan verði bara þessi 7,8% horft til framtíðar.

Við vitum að það eru erfiðir kjarasamningar fram undan og við erum á þeim tíma á árinu þegar sveitarfélög eru flest að berja saman fjárhagsáætlanir sem margar hverjar eru frekar erfiðar af því að þjónusta sveitarfélaga hefur verið að aukast mikið og sveitarfélög þurfa að nýta hverja krónu sem kemur í kassann. Hvort munu sveitarfélögin horfa á verðbólgumarkmiðið eða krónutöluhækkanir ríkisstjórnarinnar? Við skulum bara muna að í lífskjarasamningunum var verið að horfa á 2,5%. Það var meira að segja þannig að þegar veitufyrirtækin ætluðu að fara að hækka umfram 2,5% þá var það ekki samþykkt þrátt fyrir að verðbólga væri meiri, til að halda verðbólgu innan þeirra marka sem verðbólgumarkmið Seðlabankans kváðu á um. En nú er ríkisstjórnin að hverfa frá þessari leið. Mér þykir það miður. Ég óttast að það merki sem ríkisstjórnin er að senda út í samfélagið geri það að verkum að erfiðara verði að ná verðbólgu niður sem komi verst niður á þeim sem síst skyldi, lágtekjufólki, öryrkjum og fólki sem hefur ekki mikið á milli handanna. Þessar krónutöluhækkanir leggjast auðvitað hvað verst á þá hópa.

Mig langar líka að minnast á Framkvæmdasjóð aldraðra, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson gerði hér áðan. Enn og aftur á að taka fjármuni úr þessum sjóði til að reka hjúkrunarheimili. Sjóðurinn var ekki stofnaður til þess. Því miður hefur það verið þannig að ríkissjóður hefur verið að draga til sín fjármuni frá sértekjum sem ætlaðar voru til annarra verka en að reka ríkissjóð, hafa verið að draga til sín þessar tekjur og setja það inn í ríkissjóð og svo verið að úthluta einhverjum sporslum á hverju ári inn í þessa sjóði. Ég vil t.d. nefna Atvinnuleysistryggingasjóð sem var sjálfstæður sjóður á sínum tíma. Stór hluti af Framkvæmdasjóði aldraðra hefur farið í allt annað en hann var ætlaður til.

Mig langar að lokum, virðulegur forseti, að minnast á óbreyttar viðmiðanir í vaxtabótakerfi. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að vaxtabætur muni lækka að raunvirði á næsta ári. Ef viðmiðanirnar fylgja ekki launabreytingum eða eignabreytingum munu vaxtabætur lækka. Það er gott að rifja það upp að árið 2010 eða 2011 fengu rúmlega 100.000 framteljendur vaxtabætur en árið 2020 voru þeir bara 15.000. Þetta kerfi átti að taka við af félagslega kerfinu en því miður hafa ákveðnir ráðherrar lýst vanþóknun sinni á þessu vaxtabótakerfi, vilja leggja það niður. En það er ekkert sem hefur getað komið í staðinn fyrir þetta. Hlutdeildarlán geta ekki komið í staðinn fyrir þetta, styrkir inn í almenna íbúðakerfið geta heldur ekki komið í staðinn fyrir þetta.

Þetta eru atriði sem ég mun vilja horfa til þegar málið kemur til efnahags- og viðskiptanefndar. Vonandi verður hægt að gera einhverjar breytingar á þessu. Eins og ég sé þetta núna mun þetta hafa þau áhrif að verðbólga verði fest í sessi á Íslandi.