Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[17:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum, oft kallað bandormur, en það er sennilega það frumvarp sem breytir flestum hlutum í lagasöfnum á hverjum vetri. Það er dálítið athyglisvert að skoða, þegar verið er að fara í gegnum þetta frumvarp, að það virðist alltaf vera í fínu lagi að breyta og hækka gjöld á sumum hlutum en öðrum ekki. Það er jafnvel þannig, eins og við sáum, að verið er að lækka gjöld til aðila eins og Endurvinnslusjóðs á sama tíma og verið er að hækka gjöld á almenning. Í þessu frumvarpi er gjaldtakan af almenningi, sem er í formi hækkunar á gjöldum á áfengi, tóbak, kolefniseldsneyti bifreiða og kílómetragjald og ýmis vörugjöld á ökutæki, þannig að ríkissjóður nær sér þar í um 10 milljarða kr. í hækkaðar tekjur. Það sem meira er, þarna er verið að ná í þessa 10 milljarða til almennings. Þegar gjöld eru hækkuð og almenningur þarf að greiða þau er það nefnilega þannig að í raun er verið að hella olíu á verðbólgubálið, það er verið að hækka gjöld sem eru hluti af verðbólgumælikvarðanum. Þegar bent er á það segir hæstv. ráðherra að hefð sé fyrir því að hækka það alltaf. Í fyrra hækkuðum við það meira að segja miklu minna en verðbólgan var. Þá virtist vera í lagi að breyta út af hefðinni. En í ár þurfum við að hækka allt upp um 7%. Maður spyr sig hvort ekki hefði verið betra að reyna að afla ríkissjóði tekna, þessara 10 milljarða, t.d. með því að hækka veiðigjald eða hækka fjármagnstekjuskatt, hvort tveggja hugmyndir sem samráðherrar hæstv. ráðherra í Vinstri grænum og Framsókn hafa lagt til, eða hafa alla vega sagst vera opin fyrir eða veik fyrir að gera slíkt.

Með þessu frumvarpi virðist hæstv. fjármálaráðherra ekki vilja hækka gjöld á þau ríku, þau sem hafa breiðu bökin. Maður fer að spyrja sig hvort samráðherrarnir séu kannski bara að þykjast og spila einhverja gulrótarpólitík til að blekkja kjósendur með því að segjast vilja gera akkúrat öfugt við það sem hæstv. fjármálaráðherra gerir.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt en það er tvennt sem mig langaði að benda á í þessu, annað af meiri alvöru en hitt. Það fyrra er: Það er verið að hækka gjöld sem ferðamenn greiða við komuna til landsins, t.d. varðandi afslátt í fríhöfninni. Það er dálítið athyglisvert í því sambandi að hafa í huga að Ísland er eitt af örfáum löndum í heiminum þar sem slík fríhöfn er við komuna til landsins. Í flestum löndum er það nefnilega þannig að fríhöfnin er við brottför. Og það sem gerist mjög hratt, þegar gjöld á áfengi eru hækkuð við komuna til Íslands, er að það fréttist út að miklu ódýrara sé að grípa áfengisflöskuna með sér í Kaupmannahöfn, í London eða hvaðan sem viðkomandi er að koma. Það er jafnvel þegar þannig í dag að það er ódýrara að versla — jú, ég þarf að bera plastpokann á flugvellinum í útlöndum og inn í flugvélina. Sem betur fer eru meira að segja lággjaldaflugfélögin með það þannig að þau leyfa mér að taka þennan extra poka með.

Í greinargerðinni er sagt að þetta eigi að verða til þess að um 700 millj. kr. komi aukalega í tekjur til ríkissjóðs. Ég er mjög hræddur um, í gegnum vald internetsins og vegna þess að fólk leitar sér að upplýsingum um hina og þessa hluti, að fólk verði fljótt að byrja að kaupa allt áfengi og tóbak erlendis og þar með verður um tekjutap að ræða fyrir ríkissjóð.

Svo lofaði ég að minnast á eitt sem er meira af gamansemi en í alvöru. Það er talað um krónutöluhækkanir en mér fannst ansi gaman að sjá að það er fullt af aurahækkunum. Ég ákvað að fletta því upp og sá ekki betur en að á árinu 1998 hefðum við afnumið aurana eða alla vega gefið ráðherra möguleika á því. Það er spurning hvort við ættum ekki bráðum að fara að breyta þessum hækkunum og gjöldum úr aurum — við getum ekki einu sinni lengur fengið aura hjá Seðlabankanum nema kannski í gjafaöskju sem merkt er mynt Íslands — og fara að reikna í heilum krónum.