153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

evrópskir langtímafjárfestingarsjóðir.

137. mál
[17:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um evrópska langtímafjárfestingarsjóði. Málið er nr. 137 á þskj. 137. Frumvarpið var áður flutt á 152. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt að mestu óbreytt. Ekki var ágreiningur um frumvarpið við meðferð þess á síðasta þingi en það dagaði engu að síður uppi. Það kveður á um innleiðingu í íslenskan rétt á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/760, um evrópska langtímafjárfestingarsjóði. Með gerðinni er settur rammi um notkun heitanna ELTIF og evrópskir langtímafjárfestingarsjóðir fyrir þá rekstraraðila sem kjósa að markaðssetja slíka sjóði innan EES. Sjóðirnir leggja áherslu á langtímafjárfestingar til ýmissa verkefna á sviði t.d. innviða, óskráðra fyrirtækja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, viðurlög og setningu stjórnvaldsfyrirmæla.

Í reglugerðinni er fjallað um þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að unnt sé að markaðssetja sjóði sem þessa innan Evrópska efnahagssvæðisins, bæði til fagfjárfesta og einnig almennra fjárfesta. Þau skilyrði varða m.a. staðfestingu sjóðanna, samþykki lögbærra yfirvalda á rekstraraðila ELTIF-sjóðs, fjárfestingarheimildir sjóðanna, gagnsæiskröfur og kröfur vegna markaðssetningar til almennra fjárfesta.

Eina efnisbreytingin sem lögð er til á frumvarpinu frá fyrri flutningi þess varðar fjárhæðarmörk vegna sekta sem heimilt er að leggja á einstaklinga, en þar er lagt til að hámarksfjárhæð sekta verði 800 millj. kr. í stað 65 millj. kr. Sú breyting er til samræmis við sambærileg ákvæði í öðrum lögum á fjármálamarkaði.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu koma einungis til með að hafa áhrif á þá rekstraraðila sem ákveða að bjóða upp á umrædda sjóðategund. Svona sjóðir eru ekki starfræktir hér á landi um þessar mundir enda hefur íslenskt lagaumhverfi ekki boðið upp á það og ekki liggur fyrir hver eftirspurnin eftir stofnun þeirra verður. Auknar skyldur verða lagðar á þá rekstraraðila sem kjósa bjóða upp á ELTIF-sjóði, svo sem í tengslum við umsókn um staðfestingu fyrir sjóðina og um samþykki sem rekstraraðilar þurfa að afla frá Fjármálaeftirlitinu til að reka sjóðina og svo vegna eftirlits með t.d. markaðssetningu sjóðanna og viðskiptaháttum rekstraraðilanna. Ekki er gert ráð fyrir auknum umsvifum Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar að svo stöddu, en komi til þess að rekstraraðilar ákveði að bjóða upp á þessa nýju sjóðategund gætu umsvifin aukist svo einhverju nemi. Er talið að áhrif innleiðingar reglugerðarinnar verði óveruleg, að verkefnin rúmist innan núverandi rekstraráætlana Fjármálaeftirlitsins og áhrif á ríkissjóð verði engin.

irðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.