Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Enn er ég komin hér til að ræða um fiskeldisáform í Seyðisfirði. Árið 2018 voru samþykkt lög um fiskeldi hér á Alþingi. Að mínu mati voru gerð ákveðin mistök þegar leyfi voru gefin út í kippum áður en skipulag haf- og strandsvæða var klárað, eitthvað sem við verðum að læra af, ekki síst í umræðunni nú um orkuöflun og vindmyllur. Fiskeldi er orðið stór atvinnugrein í landinu og þó að mín skoðun sé sú að fiskeldi eigi ekki að vera í opnum sjókvíum snýst þessi ræða mín ekki um það heldur snýst hún um þá gölnu stöðu að áform um uppbyggingu sjókvíaeldis í Seyðisfirði eru gegn vilja meiri hluta íbúanna. 55% íbúa vilja ekki fá þetta í fjörðinn sinn. Það eitt ætti að vera nóg.

Nú liggur fyrir tillaga að strandsvæðaskipulagi Austfjarða 2022, sem kynnt var samkvæmt 12. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Margt er sérstakt í þessum tillögum en mig langar að nefna sérstaklega þá staðreynd að unnið er með landmílur í stað sjómílna sem skekkir þá mynd sem verið er að reyna að teikna upp. Annað er það að ekki liggur fyrir áhættumat vegna siglinga en Seyðisfjörður er ferjuhöfn til tæplega 50 ára og nýtur þess vegna siglingaverndar. Einn atvinnuvegur getur ekki gengið öðrum framar. Af hverju ætti fiskeldið að ganga siglingunum framar?

Það er flestum orðið ljóst að fiskeldi á einfaldlega ekki heima í Seyðisfirði. Mér gefst ekki tími til að fara ofan í öll þau rök sem styðja við þá ákvörðun meiri hluta Seyðfirðinga að vilja ekki sjókvíaeldi í fjörðinn sinn. Það eru opnar sjókvíar í flestum öðrum fjörðum á Austurlandi þar sem margt hefur gengið vel þótt ýmislegt hafi komið upp á, svo sem umhverfisslys og blóðþorri. Ég vona að við berum gæfu til þess að vanda betur til verka, hætta þessum áformum á Seyðisfirði og halda frekar betur utan um það eldi sem nú þegar er til staðar.