Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:22]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ágætan flutning á þessari þingsályktunartillögu. Það er alltaf áhugavert að taka umræðuna um þessa hluti. Eins og kom fram í flutningi hv. þingmanns þá gengur tillagan út á það að þjóðin fái að greiða atkvæði um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Ég hef svo sem hingað til ekki verið neinn sérstakur talsmaður þess að ganga þarna inn, en aftur á móti er ég þannig að ég verð líka að geta skoðað hlutina. Og í þessu samhengi, ef til kæmi, þá er ég einn af þeim kjósendum sem fengju að greiða atkvæði um það hvort við færum þarna inn eða hæfum viðræður eða hvað sem er. Því velti ég fyrir mér samningsmarkmiðunum í því samhengi og beini því til hv. þingmanns hvort það sé ekki betra að við höfum þá einhver ákveðin samningsmarkmið áður en við leggjum af stað í þessa vegferð. Hverju viljum við ná fram? Hv. þingmaður kom ágætlega inn á það í sinni ræðu hvað gæti hugsanlega gerst og einnig kom hann ágætlega inn á það að það yrðu skiptar skoðanir og þess háttar. En ég myndi halda að það væri mikilvægt fyrir kjósendur að við hefðum það á blaði fyrir framan okkur hver samningsmarkmiðin væri. Þannig að mér finnst svona að áður en lengra er haldið menn vera að byrja svolítið á vitlausum enda.