Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:35]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir framsöguna. Það er af mörgu að taka og ég vona að okkur gefist tími til að ræða þessi mál, vonandi af meiri yfirvegun og jafnvægi. Ég staldraði við eitt atriði, þegar hv. þingmaður talaði um samstöðu líkt þenkjandi þjóða og ég vona að ég hafi ekki rangt eftir honum. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þm. Loga Einarsson: Hver er afstaða hans til framferðis forysturíkja ESB undanfarinn áratug og eftir að innrás Pútíns í Úkraínu hófst? Til upprifjunar, svo ekki gæti neins misskilnings, þá vísa ég til þess hvernig forysturíki Evrópusambandsins hafa gert álfuna háða orku frá Rússlandi og þess hvernig þessi sömu forysturíki hafa orðið uppvís að því að selja Rússum vopn í trássi við viðskiptabann þar um.