Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á þetta andsvar og andsvarið hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni hér áðan og held að þetta sé svolítið fyrirboði um það sem koma skal í þessari Evrópuumræðu, að setja eitthvað annað inn í umræðuna til að fá hana á eitthvað allt annað plan. Ég treysti íslensku þjóðinni. Íslenska þjóðin var ekki að kjósa um Evrópusambandið núna í síðustu kosningum. Hún var ekki að gera það. Með þessari aðferðafræði og þessari lógík, hundalógík, er þingmaðurinn nákvæmlega að segja að það megi ekki fara fyrir þjóðina sem þingmeirihlutinn er ósammála. Það má ekki treysta þjóðinni fyrir þeim málum sem þingmeirihlutinn er ósammála. Ergo: Átti ekki að treysta þjóðinni t.d. fyrir Icesave af því að þá var á þingi meiri hluti sem vildi Icesave-samningana? Mátti þá þjóðin ekki kjósa um Icesave? Hvers konar dómadagsdella er þetta? Ég segi við ykkur flokkanna í ríkisstjórn: Ef þið getið ekki treyst ykkur til að fara fram með þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið — það liggur á að mínu mati, það er mikið hagsmunamál — og treystið ykkur ekki til að tala fyrir málinu, vinna í málinu, þá skuluð þið bara gera eins og ég hef nefnt áður, þá skuluð þið gera eins og Cameron, hann sagði af sér. Hann var ósammála Brexit, skil það mjög vel, hann sagði af sér. Mér finnst þetta bara mjög einfalt: Þau mál sem við teljum brýn — við munum koma með tillögu um það ef við teljum að þjóðin þurfi að koma að málinu. Ég treysti þjóðinni í þessu máli. Það er augljóst að þjóðin vill fá að kjósa um málið og ég spyr á móti: Af hverju ekki að leyfa henni að gera það?