Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:04]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Jú, það liggur nokkuð fyrir, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, hvert er verið að sækja og virði ég þá skoðun. En ég minni jafnframt á það að það er verulegur breytileiki líka á lífskjörum fólks innan Evrópusambandsins í tengslum við stríðið og ég veit ekki betur en að það gildi um orkureikninga og fleira. Það kom líka fram í máli hv. þm. Loga Einarssonar í andsvari við mig áðan að tengingin með strenginn yfir þýðir að þeir eru á sama orkumarkaði, Bretar og Norðmenn. En það vill líka þannig til að verðbólga mælist meira að segja í Evrópusambandinu á þessum tímum og þetta hefur allt áhrif. Stríðið hefur áhrif á okkur öll, hvort sem við erum utan Evrópusambandsins eða innan þess. Varðandi þau rök að í ljósi þessa þurfum við að gæta betur að vörnum okkar, þá hef ég verið þeirrar skoðunar, og ég á mér marga skoðanabræður og -systur í því, að vera okkar í NATO sé nægjanleg hvað það varðar. Ég get alveg tekið undir það, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að það væri mjög æskilegt að hér væri t.d. varnarlið tilbúið til að takast á við breyttar aðstæður. En ég tel að NATO gegni því hlutverki mjög vel. En enn og aftur, breytileikinn er ekki bara á Íslandi, hann er sömuleiðis í Evrópusambandinu.