Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við erum sammála um NATO. Hv. þingmaður nefndi varnarliðið, hann væri sammála því að við þyrftum að huga að því. Við lögðum nú fram tillögu þess efnis að það ætti alla vega að meta hvort það væri þörf á slíku en við fáum það ekki rætt af því að forystuflokkur í ríkisstjórn getur ekki rætt að það verði hér varnarlið að nýju í einhverri mynd.

Verðbólga í Evrópusambandinu. Já, hún er líka í Evrópusambandinu og náttúrlega fyrst og fremst til komin vegna hás orkuverðs. En við skulum líka hafa hugfast að hún kom mánuðum seinna, miklu seinna til Evrópusambandsins en hingað til íslands. Það er náttúrlega út af gjaldmiðlinum sem við höfum. Þar fyrir utan, ef við lítum t.d. til Danmerkur þá eru vextir þar tíu sinnum lægri en hér. Fólk er enn þá að borga af húsnæðislánunum sínum í Þýskalandi. Það sama gildir í Frakklandi, Ítalíu, Danmörku. Þetta eru ekki sambærilegir hlutir, aðstæður fólks hvað varðar þessa þætti. En ég geri mér grein fyrir því að það er verulegur vandi þegar kemur að orkumálum í Evrópu. Ég segi bara að sem betur fer er Evrópa saman en ekki sundruð því þá fyrst væri fjandinn laus, ef Evrópusambandið væri ekki til staðar til þess að reyna að leysa þetta heildstætt, út frá heildstæðum samfélagslegum markmiðum.

Ég vil síðan geta þess í lokin, ég held að ég hafi gleymt að draga það fram, að margir hafa sagt að við eigum að nýta fullveldið til að gera fríverslunarsamninga sjálf. Við Íslendingar höfum gert sjálf um fjóra fríverslunarsamninga, en 27 gerðum við í samfloti með EFTA-ríkjunum. Við gátum ekki gert það ein. Evrópusambandið er með 55 svæði þannig að ef við færum inn í Evrópusambandið þá myndum við stækka svæðið, stækka faðminn sem væri til í að taka á móti frábærum íslenskum vörum, þar með talið landbúnaðarvörum.