Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:58]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er algerlega fráleit spurning af hendi hv. þingmanns að spyrja mig að því hvort ég standi í þeirri trú að hér sé einhver inni sem vilji vinna íslenskum hagsmunum ógagn. Auðvitað ekki. Ég er algerlega sannfærður um að hv. þingmaður, sem er einlægur Evrópusinni, sé það á grundvelli þess að hann telur og er sannfærður um að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það vill bara svo til að ég er því ósammála og held því fram. Ég bendi líka hv. þingmanni á það í mestu vinsemd að áður en hann biður íslensku þjóðina að skera sig úr snörunni þá verður hann að segja hvaða markmið hann ætlar að setja sér. Ég heyrði hvað hann sagði um sjávarútvegsmálin en það eru fleiri mál. Það skiptir mig t.d. alveg gríðarlega miklu máli að við Íslendingar förum sjálfir með forræði yfir því við hvaða þjóðir við gerum viðskiptasamninga. Það verður alveg örugglega tekið af okkur. Ég tek mark á því þegar forráðamenn Evrópusambandsins lýsa því yfir af fullkominni hreinskilni og líklegast drengskap að það eru ekki veittar neinar varanlegar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins. Þetta á við um sjávarútveg, landbúnað og orku. Þetta á við um allt, hv. þingmaður. Þegar menn horfa á slíkar yfirlýsingar sem aldrei hafa verið bornar til baka, enda er því endurtekið haldið fram opinberlega á blaðamannafundum að engar varanlegar undanþágur verði veittar, þá hygg ég að það renni tvær grímur á fólk sem telur að það væri hugsanlega gagnlegt að kíkja í pakkann. Pakkinn verður aðeins aðlagaður að regluverkinu. Varanlegar undanþágur fást ekki.