Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að reyna að gera til að dýpka umræðuna var að reyna að fá fram frá hv. þingmanni hvaða þætti í samstarfi Evrópuríkjanna á grundvelli varnar- og öryggismála við værum að fá ef við gengjum inn í Evrópusambandið. Hverjir eru þættirnir sem öryggis- og varnarmálastefna Evrópusambandsins byggir á? Það er alveg ljóst að vörn gegn innrás annarra ríkja er miklu sterkari í NATO en í Evrópusambandinu. Þeir þættir sem Evrópusambandið er að ræða á grundvelli sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu eru miklu takmarkaðri. Það er samstarf á sviði friðargæsluverkefna. Það er samstarf á sviði innkaupa á varnarbúnaði og einhverju slíku. Það er mjög takmarkað þegar maður fer að skafa ofan af slagorðunum og reynir að kafa ofan í það hvaða þættir það eru sem raunverulega er verið að takast á við á þeim grundvelli. Það er ósköp eðlilegt því að flest Evrópusambandsríkin eru aðilar að NATO og auðvitað sáu allir að óskynsamlegt væri að byggja upp tvöfalt kerfi á þessu sviði. Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hvaða þættir, hvaða aukna gildi varnarlega séð fælist í því fyrir okkur að vera aðilar að Evrópusambandinu?