Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn spyr hvaða þættir það voru. Þetta eru sömu atriði og sömu sjónarmið og Danir ákváðu að bregðast við í kjölfar innrásarinnar. En mig langaði aftur til að fara inn í upphafspunktinn um tilurð þessa friðarbandalags sem ég held að Evrópusambandið sé óumdeilanlega. Eftir síðari heimsstyrjöld skildu lýðræðisþjóðirnar að friðurinn yrði ekki bara tryggður með hervörnum heldur líka með náinni samvinnu. Þetta finnst mér vera hluti af því sem gerir Evrópusamvinnuna svo fallega og er liður í því að Evrópusamvinnan hefur tryggt Evrópu frið í marga áratugi. Það er hins vegar líka staðreynd að á 21. öldinni er hernaður með öðrum hætti en var í kalda stríðinu og varnarsamstarfið sem við myndum ganga inn í, sem er auðvitað líka hluti af þessu samtali sem við þurfum og þyrftum að taka, fæli í sér aðra þætti og viðbót við það sem við njótum nú þegar innan NATO.