Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:37]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Mig langaði að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Í kjölfar umræðu hennar um atvinnugreinina stóru sem hefur, eins og hún benti réttilega á, heldur betur stigið á svið eftir að þetta samtal hófst með upphaflegri umsókn þá mig langaði að fá álit hv. þingmanns á einu.

Öll umræða um Evrópumál hefur í gegnum tíðina snúist mikið um sjávarauðlindina sem okkar einu auðlind og um gjaldmiðilinn. Mér finnst svo augljóst þegar við lítum á hagsmuni almennings að þá eigum við grundvallarhagsmuni af samkeppnismálum. Aðild myndi hafa í för með sér mjög jákvæðan ávinning fyrir neytendur. Evrópusambandið hefur einnig slegið mjög sterkan tón gagnvart mannréttindum.

Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður væri sammála mér um að hér séu breyttar aðstæður í loftslagsmálum frá því að þessi umræða hófst hér fyrst í þessum þingsal, og hvort hún sé sammála mér um það hagsmunamat að í dag ættum við mikið undir því að ganga inn í Evrópusambandið ekki síst með tilliti til hagsmuna okkar og markmiða á sviði loftslagsmála.