Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar andsvar. Já, hvað greinir þetta mál frá öðrum málum? Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að þetta sé eitt stærsta mál sem við getum tekist á við og ég myndi gjarnan vilja fá að vita þjóðarviljann þegar fyrir lægi að gerður hafi verið samningur. Það er svo margt sem hvílir á alþjóðasamstarfi og ég tala nú ekki um samstarfið innan Evrópu þar sem það liggur ekkert fyrir að EES-samningurinn lifi. Það liggur ekkert fyrir að EFTA lifi. Ég þekki það bara úr mínum störfum sem fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna að vera í samstarfi bæði við Noreg og önnur Norðurlönd. Norðmenn eru ekki mjög hrifnir af þessu EFTA-samstarfi til framtíðar. Þeir eru ekkert ánægðir með það að bera uppi þennan samning. Hvað gerum við ef þessi samningur fellur? Norðmenn vilja miklu frekar gera tvíhliða samninga við ESB eða fara jafnvel bara þarna inn. Þessi samningur okkar við ESB hangir bara á því að Noregur vilji vera þarna áfram. Þannig að ef Noregur fer, hvað gerum við þá? Í hvaða stöðu er Ísland þá? Ég segi fyrir mig að í mínum huga gæti þessi samningur markað tímamót fyrir Ísland sem þjóð þannig að það er ekkert verið að ræða einhver smámál hérna þegar við tölum um samstarf okkar innan Evrópuþjóða.