Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég var aðeins að velta fyrir mér hvert hann væri að fara þegar hann fór að tala um stjórnarskrána og þær mörgu tilraunir sem hafa verið gerðar til að gera einhverjar breytingar. Það gengur hvorki né rekur. Ekkert hefur farið í gegn hér í þessum sal í stóru atriðum þessa máls. Farið hefur verið í nokkrar kosningar og það eru ekki margir sem vilja ræða þetta við mig í kosningum en það getur vel verið að fleiri kjósendur vilji ræða þetta við hv. þingmann. Áhuginn er almennt lítill. Því var ég að hugsa hvort hann væri búinn að tengja sig inn í þessa þingsályktunartillögu því að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem tillaga um viðræður við Evrópusambandið er lögð fram. Áhuginn er ekkert svakalega mikill og erum við erum fjögur í salnum, þó að ég þakki fyrir þá umræðu sem verið hefur og gott að þingmenn hafi tekið til máls. En það er greinilega enginn sérstakur áhugi, hvorki hér inni eða í samfélaginu, á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, það hefur verið bent á að það þurfi að laga til í stjórnarskránni. Vandamálið við það er að við virðumst vera alveg á sitthvorum endanum, annaðhvort þarf að breyta öllu eða litlu sem engu. Þar af leiðandi höfum við ekki náð utan um að breyta því sem æskilegt væri að breyta.