Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann vísaði í það í ræðu minni þegar ég sagði að það hefði verið með algjörum ólíkindum hvað Íslendingar náðu sér hratt upp úr þeirri miklu kreppu sem varð hér eftir fjármálahrunið. Það er alveg ljóst að það var horft til okkar, hvort sem það voru matsaðilar, önnur ríki, hugveitur eða annað þá veltu þau fyrir sér hvað gerðist á Íslandi og hvernig var hægt að ná upp þessum kaupmætti, hagvexti og velmegun hjá þjóðinni. Hv. þingmaður heldur því fram að kannski hefði bankahrunið aldrei orðið ef við hefðum verið innan Evrópusambandsins og ég ætla ekki að deila við hv. þingmann, ég held við gætum farið í langa og mikla umræðu um það. En það er alveg ljóst að það var svo sem fjármálahrun á fleiri stöðum, það bara hafði svo mikil áhrif hér af því að við vorum með þessa stóru banka. Hv. þingmaður taldi sig vera með svarið, það að kaupmáttur hefði verið tekinn af fólki. Ég tek undir það að í tíð vinstri stjórnarinnar var kaupmáttur tekinn af fólki. Það var jú eftir hrun. En hvað hefur gerst síðan? Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri eða vaxið meira og kaupmáttur á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og sömuleiðis velmegun. Ég talaði um velsældarvísitölu Sameinuðu þjóðanna hérna áðan; í fyrsta sæti er Sviss, í öðru sæti Noregur, í þriðja sæti Ísland. Allt lönd sem eru utan Evrópusambandsins.