Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, nákvæmlega þetta er að kjarninn í þessu, eins og hv. þingmaður kemur inn á, þessi tillaga lýtur að því að veita þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn, hvort hún segir já í fyrri atkvæðagreiðslunni og fær þar með tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um samning sem af yrði eftir viðræður eða hvort hún vill halda áfram, ef staðan verður sú, að vera mötuð á upplýsingum, skulum við kalla það frekar en áróður, úr báðum áttum af því að fólki sem er annt um og trúir á sinn málstað og hefur starfsins vegna haft tækifæri til að kynna sér það og kýs að nota þær upplýsingar eða afvegaleiða, allt eftir hendinni, ræður för. Hvort fólkið sjálft fær að ráða för, hvort það fær að taka afstöðu til þess hvort farið verði í þessa vegferð, út komi niðurstaða og það sé aftur þjóðin sem taki afstöðu. Ég á bara gríðarlega erfitt með að skilja (Forseti hringir.) af hverju þessi andstaða er. Þetta er eiginlega ekki spurning, (Forseti hringir.) þetta eru bara hugleiðingar. Kannski væri ágætt að heyra hv. þingmann velta því upp hvaðan þessi andstaða er sprottin.